Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
30. apríl 2019

Ævintýraferðaþjónusta í sókn í heiminum

Ævintýraferðaþjónusta í sókn í heiminum
Íslandsstofa stóð fyrir fundi um ævintýraferðaþjónustu í samstarfi við afþreyingarnefnd SAF fyrr í dag.

Arnar Már Ólafsson formaður afþreyingarnefndar SAF var með opnunarávarp þar sem hann lagði áherslu á hve mikil ævintýraeyja áfangastaðurinn Ísland er. Hann velti einnig upp spurningunni hvort þörf væri á dýpri mörkun áfangastaðarins sem ævintýraeyju.

Aðalræðumaður dagsins var Casey Hanisko, forseti ATTA sem eru alþjóðasamtök um ævintýraferðaþjónustu. Hún fjallaði um framtíð ævintýraferðaþjónustu og hvernig hugmyndir um þessa tegund ferðaþjónustu hafa þróast á undanförnum árum. Casey benti á breytingar í neyslumynstri, og þá sérstaklega aðfangakeðjunni með tilkomu samfélagsmiðla og deilihagkerfisins auk helstu þemu sem virðast skipta markhópa ævintýraferðaþjónustu hvað mestu máli, s.s. öryggi, ábyrga stýringu ferðamanna og loftslagsbreytingar. Hún benti einnig á rannsókn á vegum ATTA sem sýnir hve tilbúinn áfangastaðurinn Ísland er fyrir ævintýraferðaþjónustu, en Ísland var þar í efsta sæti yfir þróaða áfangastaði á þessu sviði.

Fyrir hönd Íslandsstofu kynnti María Björk Gunnarsdóttir hvernig ævintýraferðþjónusta birtist í máli og myndum í markaðsefni Inspired by Iceland. Ævintýri eru til að mynda einn af áhersluþáttunum enda eru þeir markhópar sem skilgreindir hafa verið fyrir íslenska ferðaþjónustu mjög ævintýramiðaðir. María benti einnig á niðurstöður nýlegrar viðhorfs- og vitundarrannsóknar sem sýna sterka ímynd Íslands þegar kemur að þáttum tengdum ævintýraferðaþjónustu. Ímynd okkar helstu samanburðalanda er þó einnig sterk og mikil samkeppni sem ríkir, að sögn Maríu.

Í lokin voru tvö örerindi, annars vegar fjallaði Begga Rist frá Íslenska hestinum um tengsl hestaferða við ævintýraferðaþjónustu auk þess að kynna markaðsverkefnið Horses of Iceland. Þá kynnti Haukur Ingi Einarsson frá Glacier Adventures ævintýraferðir fyrirtækisins í nágrenni Vatnajökuls.

Fundarstjóri var Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu og fyrrverandi framkvæmdastjóri SAF.

Hér má nálgast upptöku frá fundinum


Deila