Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. maí 2015

Arnaldur Indriðason heiðraður fyrir störf sín

Arnaldur Indriðason heiðraður fyrir störf sín
Arnaldur Indriðason, rithöfundur, hlaut í dag sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum.

Arnaldur Indriðason, rithöfundur, hlaut í dag sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. 

Á síðasta ári hlaut Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar viðurkenninguna, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Kristin Sigmundsson óperusöngvara, Björk og ljósmyndarann RAX.

Í ræðu sinni um Arnald sagði Vilborg Einarsdóttir, formaður dómnefndar og stjórnar Íslandsstofu, m.a.: „Fátt er lítilli þjóð jafn mikilvægt og að lifandi bókmenntir séu skrifaðar á tungu hennar. Bækur sem eru lesnar af öllum þorra manna og verða að umtalsefni þegar tveir eða fleiri hittast á förnum vegi. Menningarlegt sjálfstæði þjóða er byggt á slíkum bókum. Ekki er verra ef bækurnar berast víða um heim og eru þýddar á öll helstu tungumál veraldar. Þannig eru bækurnar hans Arnaldar.“

Arnaldur hóf rithöfundarferil sinn árið 1997 þegar hann sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Syni duftsins. Frá þeim tíma hefur hann gefið út eina bók á hverju ári. En segja má að hann hafi fyrst slegið í gegn, bæði hér heima og erlendis, með fjórðu skáldsögu sinni, Mýrinni, sem kom út árið 2000. Eftir útgáfu hennar hefur hver einasta bók hans orðið metsölubók og Arnaldur þar með verið langvinsælasti höfundur landsins.

Vinsældir hans ná einnig langt út fyrir landsteinana og má finna bækur hans á áberandi stöðum í helstu bókabúðum erlendis. Á hinum Norðurlöndunum og í Þýskalandi eru þær gjarna á metsölulistum. Bækur Arnaldar hafa einnig verið þýddar yfir á framandi tungumál s.s. kínversku, tyrknesku, arabísku, katalónsku, króatísku og ungversku.

Arnaldur hefur því svo sannarlega með starfi sínu og verkum borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Hreggviður Jónsson frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Vilborg Einarsdóttir stjórnarformaður Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Deila