Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. júlí 2020

Bjóða útlendingum að losa um streitu á Íslandi

Bjóða útlendingum að losa um streitu á Íslandi
Inspired by Iceland býður fólki um allan heim að losa um uppsafnaða streitu vegna Covid-19 með því að láta öskur sitt hljóma á Íslandi.

Hátölurum hefur verið komið fyrir víðs vegar um landið en hægt er að taka öskrin upp með aðstoð tölvu eða síma á vefsíðunni www.lookslikeyouneediceland.com næstu tvær vikur.

Það verða sjö hátalarar sem koma öskrunum til skila á Íslandi og getur fólk valið um staðsetningu. Hátalararnir eru staðsettir í Viðey í Reykjavík, Festarfjall við Grindavík, í nágrenni Skógarfoss, skammt utan við Djúpavog, við rætur Snæfellsjökuls, við Kálfshamarsvík og við Rauðasand á Vestfjörðum. Notendur fá svo að lokum myndbandsupptöku af því þegar öskrið þeirra „glymur“ á Íslandi. Íslendingar þurfa þó ekki að óttast að gremjuöskur útlendinga skemmi sumarfrí þeirra þar sem hljóðstyrknum er stillt í hóf.

Herferðin sem hefur hlotið nafnið „Let It Out“ eða „Losaðu þig við það“ sækir innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum. Í könnun sem framkvæmd var á erlendum mörkuðum fyrir Inspired by Iceland í byrjun júní sögðust 40% aðspurðra finna fyrir streitueinkennum vegna Covid-19, og 37% svöruðu að ástandið hefði haft neikvæð áhrif á sálartetrið. Langvinn innivera, einsemd, endalausir fjarfundir og röskun á daglegu lífi, auk takmarkana á ferðalögum milli landa, hafa aukið streitu fólks. Herferðinni er ætlað að draga fram kosti Íslands sem áfangastaðar.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu: „Við viljum vekja athygli tilvonandi ferðamanna á að það er tiltölulega öruggt að ferðast til Íslands og að hér er hægt að upplifa fallega náttúru í fámenni, en það er eitthvað sem við teljum að fólk muni sækjast eftir þegar áhugi fólks á að ferðast eykst á ný.

„Það er mikilvægt að vekja athygli á kostum Íslands núna. Fólk er að láta sig dreyma um þá tíma þegar það verður hægt að ferðast aftur og jafnvel leggja á ráðin um ferðalög í náinni framtíð. Við viljum vera hluti af því samtali. Streitulosun er viðeigandi við þessar kringumstæður en gefur okkur jafnframt tækifæri á sama tíma til að sýna landið og minna á kosti Íslands.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótti, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Það er spennandi að geta boðið fólki að upplifa Ísland með þessum hætti. Ég held að við þurfum öll að losa um streitu eftir undanfarna mánuði, og Ísland hefur allt til að bjóða fyrir fólk sem þarf á endurnærandi upplifun að halda. Hvort sem það er stafræn heimsókn til að losa um streitu eða raunveruleg heimsókn í afslappað frí.“ 


Herferðin er hluti af markaðsverkefninuÍsland – saman í sókn, semheyrir undir efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 og er fjármagnaðafatvinnuvega-ognýsköpunarráðuneytinu. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu, og aðgerðir á vegum verkefnisins fara fram undir merkjum Inspired by Iceland sem er vörumerki íslenskrar ferðaþjónustu.  

Deila