Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. júní 2020

Bókanir byrjaðar en takmarkaður áhugi næstu mánuði

Bókanir byrjaðar en takmarkaður áhugi næstu mánuði
Ný könnun sem MMR framkvæmdi fyrir Íslandsstofu í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi bendir til að nokkur munur sé á því hvenær líklegt er að ferðamenn frá þessum löndum fari að hugsa sér til hreyfings.

Um 30% Þjóðverja geta hugsað sér að ferðast á næstu sex mánuðum, um 24% Breta en einungis 16% Bandaríkjamanna. Ef horft er til næstu 12 mánaða breytast hlutföllin lítillega, en 38% Breta, 33% Þjóðverja og 30% Bandaríkjamanna gera ráð fyrir því að ferðast eftir 6-12 mánuði. Áhugi á ferðalögum á næstunni á þessum mikilvægustu mörkuðum Íslands er því takmarkaður. Viðhorf til Íslands er þó mjög jákvætt og telja til dæmis 82,5% svarenda að Ísland bjóði upp á einstaka upplifun sem er hvergi hægt að finna annars staðar. 

Könnunin bendir til þess að flestir Bretar og Þjóðverjar sem eru tilbúnir að ferðast erlendis á ný horfi til haustsins en Bandaríkjamenn um áramótin. Könnunin bendir einnig til þess að á öllum markaðssvæðum horfi fólk til sumarsins 2021 sem ákjósanlegs tíma til að ferðast utan heimalandsins. 

COVID-19 heimsfaraldurinn er sú hindrun sem flestir nefna að takmarki ferðaáhuga. Fjárhagslegar áhyggjur vega einnig þungt vegna óvissu og óvæntra atvika sem gætu komið upp á ferðalögum. 

Traust til Íslands mælist mjög hátt gagnvart meðhöndlun á COVID-19. Þannig sögðust 70% aðspurðra treysta Íslandi vel eða mjög vel til að takast á við COVID-19.  

Í könnuninni var fólk spurt að því hvaða land kæmi fyrst upp í hugann ef það hygðist ferðast á næstu tveimur árum. Í Bretlandi lendir Ísland í 14. sæti, í Bandaríkjunum í 15. sæti og í Þýskalandi í 21. sæti.  

Sjá nánar: 

Könnun MMR fyrir Íslandsstofu (PDF) 

Um könnunina: 

MMR framkvæmdi könnunina í Bandaríkjunum, Bretlandi og í Þýskalandi fyrir Íslandsstofu. 1.000 svör voru veitt á hverju markaðssvæði. Úrtakið byggir á ferðamönnum sem eru líklegastir til að hefja ferðalög á ný (e. first movers).  


Deila