Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. september 2014

Bygging kísilvers hafin í Helguvík

Bygging kísilvers hafin í Helguvík
Fyrsta skóflustungan að nýrri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík var tekin þann 27. ágúst sl. Fulltrúar fjárfestingasviðs Íslandsstofu voru viðstaddir athöfnina enda hefur sviðið unnið með aðstandendum verkefnisins frá því undirbúningur þess hófst.

Fyrsta skóflustungan að nýrri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík var tekin þann 27. ágúst sl. Fulltrúar fjárfestingasviðs Íslandsstofu voru viðstaddir athöfnina enda hefur sviðið unnið með aðstandendum verkefnisins frá því undirbúningur þess hófst. Hollenskir og danskir fjárfestar í Fondel Group standa að baki verkefninu ásamt íslenskum og dönskum frumkvöðlum.

Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, Doron Sanders, stjórnarformaður United Silicon, og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra héldu stutt erindi áður en skóflustungan var tekin og jarðvegsframkvæmdir við fyrirhugað 5.000 fermetra verksmiðjuhús hófust með sprengingu.

Í ávarpi Magnúsar Garðarssonar kom fram að allir lykilsamningar séu í höfn og að gert sé ráð fyrir að starfsemi verksmiðjunnar hefist fyrri hluta árs 2016. Í upphafi verður settur upp einn ljósbogaofn frá Tenova sem getur framleitt 21.300 tonn af kísilmálmi á ári. Til þess þarf afl upp á 35 MW en samið hefur verið við Landsvirkjun um kaup á orku. Ráðgert er að fullbúin verði verksmiðjan með fjóra ofna, þurfi 140 MW af afli og verði þá sú stærsta sinnar tegundar í heimi með framleiðslugetu upp á 85.000 tonn á ári. Markaður fyrir kísilmálm hefur farið vaxandi og þar vegur eftirspurn frá framleiðendum sólarsella þungt. Um 60 manns munu vinna við framleiðsluna eftir að hún hefst 2016 en allt að 300 störf verða til á byggingartímanum.

Deila