Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. ágúst 2019

Eggert Benedikt nýráðinn forstöðumaður loftslagsmála

Eggert Benedikt nýráðinn forstöðumaður loftslagsmála
Eggert Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir.

Eggert býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu sem stjórnandi auk þess að hafa áralanga reynslu af stjórnarstörfum fyrir fjölda fyrirtækja og félaga hérlendis og erlendis. Telur ferill hans starfsreynslu úr stóriðju, sjávarútvegi, hátækni, verslun, menningarstarfsemi og fleiru.

Um 10 ára skeið stýrði Eggert tveimur af stærstu fyrirtækjum landsins, N1 hf. (2012 – 2015) og  HB Granda hf.  (2005 – 2012). Nú síðast gegndi hann forstjórastöðu fyrir nýsköpunarfyrirtækið eTactica sem starfar á sviði raforkueftirlitskerfa. Önnur fyrri störf eru m.a. fyrir Philips Electronics í Kaliforníu og Belgíu og Marel hf. á Spáni. Hann var yfirverkfræðingur Bresi Group hjá Íslenska járnblendifélaginu hf., starfaði við rannsóknir við Háskólann í Karlsruhe, auk kennslu við gagnfræðaskólann á Húsavík. Eggert hefur einnig sinnt ráðgjafastörfum m.a. fyrir FAO í Róm og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, auk þess sem hann kom að undirbúningsvinnu í aðdraganda stofnunar Samstarfsvettvangsins sem ráðgjafi.

Núverandi stjórnarstörf Eggerts telja sæti í stjórn HB Granda hf. Hann situr í External Advisory Committee MBA náms HR auk þess sem hann er stjórnarformaður Hótels Holts og formaður Leikfélags Reykjavíkur. Af fyrri stjórnarstörfum má nefna setu í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Háskólaráði HR, fagráðum og stjórn Íslandsstofu o.fl.

Eggert er með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Þýskalandi auk þess sem hann hefur einnig  lokið MBA- og AMP-gráðum á Spáni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Unnur Brá Konráðsdóttir, aðstoðarmaður ríkisstjórnar, eru formenn Samstarfsvettvangsins:

Unnur Brá Konráðsdóttir: „Öflugt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda er nauðsynlegt til að við náum þeim árangri sem nauðsynlegur er í loftslagsmálum. Það er ánægjulegt að finna þann mikla vilja atvinnulífsins til að gera betur og stjórnvöld vænta mikils af samstarfinu. Ég hlakka til að vinna með Eggerti Benedikt að verkefnum vettvangsins en hann hefur mikla reynslu sem mun nýtast vel sem og brennandi áhuga á málefninu.“

Sigurður Hannesson: „Loftslagsmál eru ein af stærstu áskorunum okkar á næstu árum. Þau verða ekki leyst nema með samvinnu allra aðila og þess vegna er Samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um málefni svo mikilvægur. Atvinnulíf hefur enda mikinn vilja og metnað til að gera enn betur. Það er mikill fengur að því fyrir þetta mikilvæga verkefni að njóta krafta Eggerts Benedikts enda býr hann yfir víðtækri reynslu af stjórnun sem mun nýtast vel til að ýta verkefninu úr vör.“

Alls bárust 54 umsóknir um stöðuna og var ráðningarferli í höndum Hagvangs.

Verkefnið verður hýst hjá Íslandsstofu og hefur Eggert störf nú þegar.


 

Deila