Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
4. febrúar 2021

Erlendir ferðaheildsalar hafa trú á Íslandi

Erlendir ferðaheildsalar hafa trú á Íslandi
Erlendir ferðaheildsalar hafa vaxandi trú á Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu samkvæmt nýrri könnun.

Erlendir ferðaheildsalar hafa vaxandi trú á Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu samkvæmt nýrri könnun. Í henni er mæld svokölluð meðmælatryggð en hugtakið metur samspil þeirra sem mæla með ferðalögum til Íslands og þeirra sem gera það ekki. Meðmælatryggð áfangastaðarins hefur aldrei mælst hærri en nú. Könnunin er gerð tvisvar á ári.

Þættir eins og öryggi, viðbrögð stjórnvalda við Covid-19 heimsfaraldrinum, lág tíðni smita og sjálfbærni hafa áhrif.

„Niðurstöður könnunarinnar gefa góð fyrirheit um enduruppbyggingu greinarinnar þegar faraldrinum lýkur. Við verðum þó að vera raunsæ og væntingar um bókanir í upphafi árs eru töluvert neikvæðari en við höfum séð í fyrri könnunum“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.

„Það er ljóst að við þurfum að sýna þolinmæði. Það er þó áhugavert að sjá að meirihluti þátttakenda í könnuninni telja að bókanir á ferðum til Íslands taki við sér strax á fyrri hluta ársins og verði orðnar álíka margar á næsta ári og þær voru áður en landamærin lokuðust.“

Könnunin bendir til þess að nærmarkaðir, Norðurlönd, Mið- og Suður-Evrópa og Bretland verði fyrstir til að taka við sér sem er í samræmi við áætlanir Íslandsstofu. „Þessar niðurstöður eru í takt við áherslur í markaðsverkefninu Saman í sókn. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með þróuninni á okkar helstu markaðssvæðum og lögum aðgerðir að breytingum sem kunna að verða,“ segir Sigríður Dögg.

Sjá nánar:

Niðurstöður könnunarinnar (PDF)

 

Deila