Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. janúar 2012

Erlendir gestir eyða um 700 m.kr. á Airwaves

ÚTÓN framkvæmdi könnun á Iceland Airwaves-hátíðinni sem fram fór 2011 í samstarfi við Íslandsstofu þar sem aðalmarkmiðið var að komast að því hver velta erlendra gesta er í kringum hátíðina. Nú er vinnu við gagnavinnslu lokið og niðurstöður liggja fyrir.

Helstu niðurstöður eru þær að velta erlendra gesta hefur aukist um 55% en veltan var 482,5 m.kr. og þá er ferðakostnaður ótalinn. Gestirnir vörðu 313 m.kr. á hátíðinni árið 2010. Ef ferðakostnaður gestanna er meðtalinn er velta erlendra gesta árið 2011 um 664 milljónir króna. Veltuaukninguna má helst rekja til þess að erlendum gestum hefur fjölgað um 26% og auk þess gista þeir einni nótt lengur að meðaltali. Erlendir gestir voru samtals 2.794 talsins á hátíðinni og eyddu þeir að meðaltali 26.168 kr. á dag í Reykjavík. Innlendir gestir voru 4.068. Heildarfjöldi hátíðargesta var því 6.862 og þar af voru listamenn 846 talsins.

Útreikningar Hagstofu Íslands á neyslu erlendra ferðamanna samræmast niðurstöðum þessarar könnunar en ef forsendur útreikninganna eru notaðar við útreikninga á neyslu erlendra gesta á Iceland Airwaves er heildarvelta gestanna um 661 milljónir króna og þá er ferðakostnaður meðtalinn (í þessari könnun er heildarveltan 664 milljónir).

Aðrar áhugaverðar niðurstöður sýna að Bandaríkjamenn eru um fjórðungur erlendra gesta á Iceland Airwaves. Um 83% svarenda voru að heimsækja hátíðina í fyrsta sinn og um 13% þeirra í annað sinn. Langflestir gestir greiða fyrir gistingu sína á meðan dvöl þeirra stendur en 17% gista hjá annaðhvort vinum eða ættingjum. Hótel og farfuglaheimili eru algengustu gistikostirnir.

Alls var könnunin lögð fyrir 350 erlenda gesti hátíðarinnar. Kynjahlutfall svarenda var 58% karlar og 42% konur. Meðalaldur hópsins var 28,9 ár. 

Deila