Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. febrúar 2017

Fjölmenni á fundi um ímynd Íslands

Fjölmenni á fundi um ímynd Íslands
Fjölmenni var á fundi á vegum Íslandsstofu sem bar heitið “Er ímynd Íslands að breytast?". Greinilegt var að efni fundarins vakti áhuga þar sem um 300 gestir sóttu hann og yfir 60 manns fylgdust með beinni útsendingu á netinu.

Íslandsstofa stóð í gær fyrir fundi sem bar heitið “Er ímynd Íslands að breytast?" Greinilegt var að efni fundarins vakti áhuga þar sem um 300 gestir sóttu hann og yfir 60 manns fylgdust með beinni útsendingu á netinu.  

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, flutti ávarp á fundinum þar sem hún tilkynnti m.a. opnun skrifstofu ferðamála innan ráðuneytisins.

Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu greindi frá niðurstöðum viðhorfsrannsóknar um viðhorf á erlendum mörkuðum gagnvart Íslandi sem áfangastað. Þar kom m.a. fram að 70% aðspurðra eru jákvæðir gagnvart Íslandsheimsókn og helmingur er jákvæður gagnvart ferðalagi til Íslands utan sumartíma. Hér má nálgast kynningu Daða.

Margrét Helga Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu kynnti niðurstöður nýlegrar spurningakönnunar sem send var út til erlendra ferðasöluaðila sem eru á póstlista Íslandsstofu. Helstu niðurstöður sýna að öll markaðssvæðin voru að upplifa aukningu í sölu á síðasta ári samanborið við 2015. Einnig kom fram að 83% eiga von á áframhaldandi þróun eða svipaðri stöðu fyrir árið 2017. Hér má nálgast niðurstöðurnar

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sagði m.a. í framsögu sinni að með herferðum á borð við Ask Guðmundur og Iceland Academy væri staða Íslands sterkari út á við og hægt væri að horfa á þá þætti sem að umræðan ætti að snúist um. Hún sagði jafnframt að ímynd og orðspor Íslands væri ekki aðeins byggt upp með fallegri glansmynd sem er búin til af þátttakendum Inspired by Iceland verkefnisins heldur út frá staðreyndum. 

Gísli Einarsson, fjölmiðlamaður ræddi um sjálfsmynd okkar Íslendinga og ímynd Íslands í huga landans. Sagði hann m.a. vert að hafa í huga að þótt einstaka neikvæðar fréttir af Íslandi rati í fréttir hafi það ekki endilega bein áhrif á ímynd landsins út á við. Sagði hann að kannski er kominn tími til þess að beina markaðssetningunni meira inn á við, kannski þurfum við ekki lengur að sannfæra útlendinga um hvað Ísland er æðislegt, heldur í staðinn að beina orkunni í það að sannfæra okkur sjálf um það hvað landið er æðislegt." 

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu flutti erindi með yfirskriftinni „Er ímynd Íslands breytt?" Þar fór hún m.a. yfir áherslur í markaðsstarfi Íslandsstofu og markaðssáætlun á næstu árum og reifaði fjölmiðlaumfjöllun um Ísland á undanförnum misserum. Inga sagði flest benda til að ímynd Íslands sem áfangastaðar á erlendum mörkuðum yrði áfram mjög jákvæð, Þá sýndi hún myndband um tölulegan árangur verkefnisins Iceland Academy á liðnu ári. Hér má nálgast kynningu Ingu Hlínar

Fundarstjóri á fundinum var Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line og formaður fagráðs ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. 

Hér má nálgast myndbandsupptöku frá fundinum

 

Deila