Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
20. febrúar 2012

Fjölmennur fundur á sjávarútvegssýningunni í Bremen

Iceland Responsible Fisheries hélt kynningarfund á Fish International sýningunni í Bremen 13. febrúar síðastliðinn undir yfirskriftinni „Responsible Fisheries in Icelandic Waters.“

Fundurinn var vel sóttur; um 100 manns mættu til að kynna sér vottun og þýðingu ábyrgra fiskveiða Íslendinga í markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum, einkum í Þýskalandi.

Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri HB Granda stýrði fundinum og gaf yfirlit yfir áherslur í Iceland Responsible Fisheries verkefninu í opnunarræðu sinni. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar, kynnti hvernig staðið er að rannsóknum hjá stofnuninni, útskýrði viðgang fiskistofna og mikilvægi þess að nýta árganga sem best. Hann fjallaði sérstaklega um stöðu karfans, ufsans og þorsksins, ræddi um grundvöll fiskveiðiráðgjafar, gagnasöfnun og hvernig fiskveiðistjórnun stuðlar að uppbyggingu fiskistofna. Peter Marshall, framkvæmdastjóri Global Trust á Írlandi, útskýrði kerfi vottunar undir merkjum Iceland Responsible Fisheries en vottunin byggir á alþjóðaviðmiðunum FAO. Global Trust hefur hlotið ISO 65 faggildingu til að votta ábyrgar veiðar á grundvelli þeirra viðmiðana.

Óskar Sigmundsson sýndi hvernig fyrirtækið German Seafrozen er að nýta sér íslenskan uppruna og vottun á þorski í sínu kynningarstarfi sínu. Fyrirtækið er það fyrsta sem hlýtur rekjanleikavottun fyrir þorsk undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Óskar benti á að í Þýskalandi er þorskur með mjög lága markaðshlutdeild og taldi hann þá tegund falla kröfuhörðum neytendum vel í geð og eiga mikla möguleika á markaðinum. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Berlín flutti lokaorð, en fundurinn var haldinn í samstarfi við sendiráðið og þýsk-íslenska viðskiptaráðið.

Deila