Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. febrúar 2012

Frakkar á ferð

Í upphafi mánaðarins stóðu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Íslandsstofa fyrir fjölmennum upplýsingafundi um franska markaðinn.

Árni Gunnarsson, formaður SAF, setti fundin og lofaði þann mikla uppgang sem verið hefur á Frakklandsmarkaði að undanförnu en það lætur nærri að fjöldi franskra ferðamanna til Íslands hafi tvöfaldast á undanförnum tíu árum.
Jürgen Bahmann, aðalritari frönsku ferðaheildsalasamtakanna CETO, fjallaði um franska markaðinn í heild sinni og sérkenni hans. Þar ber helst að nefna hina skýru landfræðilegu skiptingu markaðarins milli Parísarsvæðisins og annarra landshluta sökum góðra flug- og lestarsamgangna á svæðinu. Einnig kom fram að stór hluti Frakka ferðast einungis innanlands og því mikil samkeppni um hvern ferðamenn í ljósi þessa.
Erich Biard, farmkvæmdastjóri Island Tours France, sagði Ísland enn teljast mjög sérhæfða söluvöru á franska markaðnum, en lofaði jafnframt aukningu gæða í Íslandsferðum undanfarin misseri. Þá nefndi hann að gæta þurfi varúðar í að kynna Ísland sem „vetraráfangastað,“ þar sem fólk setji slíkt gjarna í samhengi við snjó - sem ekki sé hægt að ábyrgjast hér - og kæmi því hugtakið „heilsársáfangastaður“ betur út.
Armelle Guillot, sölustjóri IFTM Top Resa ferðakaupstefnunnar í París, kynnti Top Resa sýninguna, sem hefur aukist mjög ásmegin síðustu ár og er nú orðin aðalvettvangur fagfólks í alþjóðlegri ferðaþjónustu á franska markaðnum.
Íslandsstofa mun á næstunni kanna áhuga á þátttöku íslenskra fyrirtækja á að taka þátt í næstu sýningu sem fer fram í lok september á þessu ári.
 

Deila