Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. apríl 2016

Framtíðin rædd á ársfundi Íslandsstofu

Framtíðin rædd á ársfundi Íslandsstofu
Um 200 manns sóttu ársfund Íslandsstofu sem fór fram í morgun.

Um 200 manns sóttu ársfund Íslandsstofu sem fór fram í morgun. Vilborg Einarsdóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu setti fundinn. Nýskipaður utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir flutti ávarp þar sem hún sagði m.a. að auka þurfi útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til ársins 2030 til að Íslandi haldi efnahagslegum styrk. Hún boðaði samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og að stefnumótun í útflutningsþjónustu yrði skerpt til langs tíma. Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum starfshóps sem skipaður var árið 2013.

„Ég legg áherslu á náið og sterkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og að vettvangur þess verði áfram Íslandsstofa. Jafnframt að atvinnulífið verði áfram hinn mótandi drifkraftur í starfinu,“ sagði utanríkisráðherra.  Á næstunni  verður skipuð ný stjórn Íslandsstofu, en skipunartími núverandi stjórnar er fram til í ágúst. Utanríkisráðherra sagði að ný stjórn myndi hafa það meginhlutverk að hrinda tillögunum í framkvæmd og efla enn frekar hið góða starf Íslandsstofu.

Lilja sagði að skýra verði rekstrarform Íslandsstofu, gera nýjan þjónustusamning við ríkið og setja fastari mælikvarða á árangur. Setja verði á fót samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs, útflutnings- og markaðsráð, til að móta með Íslandsstofu langtímastefnu sem miði að því að auka útflutningsverðmæti á næstu 15 árum.

„Markmiðið með öllu þessu er að gera starf Íslandsstofu öflugra, styrkja stefnumótun og að breikka sóknarleik landsliðs Íslands á erlendum mörkuðum. Ég hvet menn til að sjá þetta ekki sem íþyngjandi heldur miklu fremur sem tækifæri til að efla starfið,“ sagði Lilja.

Að lokinni ræðu utanríkisráðherra sagði Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu frá starfsemi síðasta árs og ársreikningum og sýndi myndband þar sem starfsemi Íslandsstofu var reifuð í máli og myndum. Ársskýrsla Íslandsstofu 2015

Að lokum tók til máls gestafyrirlesari fundarins, framtíðarfrömuðurinn Anne Lise Kjær þar sem hún vakti viðstadda til umhugsunar um þá strauma og stefnur sem líklegt er að hafa muni áhrif á líf okkar og viðhorf í framtíðinni.
Hér má skoða kynningu Anne Lise

Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum

 

Deila