Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. maí 2015

Góður samhljómur á ráðstefnu um útflutning matvæla

Góður samhljómur á ráðstefnu um útflutning matvæla
Samstarfsvettvangurinn Matvælalandið Ísland stóð fyrir ráðstefnu um útflutningsmál þann 21. maí og bar hún yfirskriftina „Útflutningur matvæla – til mikils að vinna“. Ráðstefnan var vel sótt og mörg áhugaverð erindi voru flutt, þ.á.m. reynslusögur íslenskra matvælaútflytjenda.
Ljósmyndir: smh/ Bændablaðið

Samstarfsvettvangurinn Matvælalandið Ísland stóð fyrir ráðstefnu um útflutningsmál þann 21. maí og bar hún yfirskriftina „Útflutningur matvæla – til mikils að vinna“. Ráðstefnan var vel sótt og mörg áhugaverð erindi voru flutt, þ.á.m. reynslusögur íslenskra matvælaútflytjenda. Upptökur af fundinum og glærur eru nú aðgengileg á vefnum.

Ráðstefnan hófst á hádegishressingu sem fram var borin af meistarakokkum Grillsins og gerðu ráðstefnugestir þeim góð skil. Guðný Káradóttir forstöðumaður sviðs sjávarútvegs- og matvælasviðs hjá Íslandsstofu fjallaði um mikilvægi stefnumótunar í útflutningi og ávinnings samstarfs í markaðsstarfi. Jón Georg Aðalsteinsson, stofnandi og einn af eigendum Ice-Co í Sviss, sagði frá reynslu sinni í útflutningi á kröfuharðan markað og dró fram þá þætti sem nauðsynlegir eru til þess að standast kröfur og væntingar í útflutningi. Þau Hrönn Jörundsdóttir, verkefnastjóri og Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís gerðu grein fyrir mikilvægi matvælaöryggis og ýmsum mælingum sem Matís stendur að. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði ráðstefnuna og sagði frá nýlegri samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leggja samtals 400 milljónir króna á næstu fimm árum til verkefnisins „Matvælalandið Ísland“ sem Íslandsstofa mun hafa umsjón með. Þá voru afhent verðlaun í keppninni Ecotrophelia: vistvæn nýsköpun matvæla. Í liðinu sem sigraði voru nemendur úr Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og höfðu þau þróað humarpaté. Aðalhráefnin voru humarmarningur og þorskþunnildi.

Í öðrum hluta ráðstefnunnar sögðu fulltrúar sex íslenskra matvælafyrirtækja frá reynslu sinni af útflutningi, lykilárangursþáttum fyrirtækjanna og helstu hindrunum. Fyrirtækin eru Norðursalt, Omnom, Kjötafurðastöð KS, Móðir jörð, Foss distillery og Sæmark.

Í lok ráðstefnunnar tók Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, saman helstu atriði erindanna en þau höfðu töluverðan samhljóm. Meðal þess sem kom fram var að flutningar lítilla sendinga geta verið dýrar, kostur að fyrirtæki vinni saman og góð hönnun og fallegar umbúðir eru tækifæri til aðgreiningar á markaði. Það sem stóð upp úr var að flestir eða allir töldu hag af samvinnu meðal fyrirtækja í útflutningi og að dýrmætt væri að deila reynslu sinni.

Matvælalandið Ísland er samstarf aðila í matvælageiranum sem Íslandsstofa tekur þátt í ásamt m.a. Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum sjávarútvegsfyrirtækja, Matís og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Markmiðið með samstarfinu er m.a. að bæta samvinnu og gegnsæi í matvælageiranum, skoða tækifæri og vaxtarbrodda, og stuðla að nýsköpun, verðmætasköpun og aukinni framleiðni.

 

Deila