Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. apríl 2013

HB Grandi hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

HB Grandi hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, HB Granda Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2013 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, HB Granda Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2013 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. 

HB Grandi er í fararbroddi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og er fyrirtækinu veitt verðlaunin fyrir leiðandi starf í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á íslensku sjávarfangi.

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Það hefur HB Grandi sannarlega gert og er félagið því vel að verðlaununum komið.

Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi fær sérstaka heiðursviðurkenningu.

Þá afhenti forseti einnig sérstaka heiðursviðurkenningu til Jóhanns Sigurðssonar bókaútgefanda fyrir framlag hans til að auka hróður Íslands á erlendri grundu með heildarútgáfu Íslendingasagna, fyrst á ensku og nú á Norðurlandamálum. Er þar um að ræða eitthvert stærsta þýðingarverkefni sem um getur á Íslandi - og þó víða væri leitað og því óhætt að segja að Jóhann hafi með starfi sínu varpað jákvæðu ljósi á land okkar og þjóð.

Í fyrra var það Ragnar Axelsson ljósmyndari sem hlaut þennan heiður, en Kristinn Sigmundsson óperusöngvari árið þar á undan.

Um 130 manns voru viðstaddir athöfnina, þar af rúmlega 100 starfsmenn HB Granda hf.

Verðlaunagripurinn

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Sigrúnu Einarsdóttur glerlistakonu og heitir listaverkið „Sómi“. Um verk sitt segir listamaðurinn:  „Undirstaða verksins er jörðin og hafið, sem vísað er til bæði í litum og áferð, þ.e. blár (spegil-) litur hafsins og grófa áferð hraunsins. Upp af undirstöðunni rísa súlurnar sem bæði hafa tilvísun í ólgu hafsins en einnig í framþróun, orku og ötulleika. Að lokum táknar hinn ljósi toppur “pródúktið” með bjartsýni, áræðni og útrás, sem mynstrið - með tilvísun í hefðirnar og kunnáttuna - undirstrikar að byggt sé á traustum gildum.“

Um útflutningsverðlaunin

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 25. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Lýsi, 3X-stál, Samherji, Sæplast, Guðmundur Jónasson, og Marel og á síðasta ári hlutu Trefjar verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá afhendingunni. (Smellið á myndirnar til að stækka þær)

Deila