Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
5. ágúst 2015

Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning

Nú stendur yfir heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning í Danmörku. Þar keppa Íslendingar með stórglæsilegt lið hesta og knapa. Nítján þjóðir hafa keppnisrétt á mótinu og má búast við miklum fjölda gesta þá sjö daga sem það stendur yfir. Auk þess kynna íslensk fyrirtæki og hagsmunafélög í hestamennsku á Íslandi, íslenska hestinn, vörur sínar og þjónustu í íslenska tjaldinu sem Íslandsstofa hefur umsjón með. Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins um heim allan. 

Þar er markmiðið að skapa áhuga á upprunalandi íslenska hestsins, miðla fróðleik til gesta, mynda tengsl og selja vörur og þjónustu sem tengist íslenska hestinum. Landsmótið á Hólum 2016 er kynnt og geta gestir keypt miða á mótið á góðum kjörum meðan á heimsmeistaramótinu stendur.
Í tjaldinu, sem kallað er Laufskálarétt, er leitast við að skapa létta stemmingu með því að bjóða gestum að hlusta á söng og harmonikkuleik auk þess sem boðið er upp á íslenskt góðgæti eins og hangikjöt, síld og rúgbrauð, lax og soðbrauð, pönnukökur og vöfflur. 

Félag hrossabænda, Landssamband hestamannafélaga, Bændasamtökin, WorldFengur, Hólaskóli, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Landsmót hafa tekið höndum saman um að kynna íslenska hestinn undir merki Horse Plaza. Þessir aðilar taka allir þátt í að móta langtíma markaðsverkefni sem Íslandsstofa leiðir og unnið er með stuðningi yfirvalda, en verkefnið verður kynnt fyrir eigendum íslenska hestsins erlendis á mótinu í Herning.
Fyrirtækin sem kynna vörur sínar og þjónustu í íslenska tjaldinu eru Íshestar, Kálfholt, Krummusæti, Hugrún (islensk.is), Börkur design, Frú Pálína (ullarvörur), Aqua Icelander Water Trainer og Litli Mosi.

Hægt er að fylgjast með fréttum af mótinu á samfélagsmiðlum, m.a. hjá Horse Plaza og Landssambandi hestamannafélaga. Á vefsíðu mótsins koma fram upplýsingar um dagskrá o.fl. 

Deila