Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. október 2021

Heimsmeistaramót League of Legends á fullri ferð í Laugardal

Heimsmeistaramót League of Legends á fullri ferð í Laugardal
Eitt stærsta rafíþróttamót í heiminum, League of Legends Worlds, fer fram í Laugardalshöll frá 5. október til 6. nóvember og skilar hingað verðmætum gjaldeyristekjum.

Þann 5. október sl. hófst heimsmeistaramótið í League of Legends í Laugardalshöll. Um er að ræða stærsta viðburð sem haldinn hefur verið hér á landi, ef miðað er við umfang og áhorf á mótinu. Áætlað er að á annað hundrað milljón manns muni fylgjast með viðburðinum meðan á honum stendur hér á landi en úrslitin fara fram 6. nóvember nk. Um 700 manns munu dvelja hér á landi í lengri eða skemmri tíma vegna mótsins og er reiknað með að hópurinn muni þurfa í kringum 20.000 gistinætur sem skilar sér í verðmætum gjaldeyristekjum. Auk þess starfar fjöldi innlendra fyrirtækja í kringum verkefnið hér á landi.

Þetta er í annað sinn sem stórt mót í League of Legends tölvuleiknum fer fram í Reykjavík, en síðastliðið vor var boðsmótið Mid-Season Invitational haldið í Laugardalshöll. Vel heppnuð framkvæmd á því móti vóg þungt í þeirri ákvörðun að halda heimsmeistaramótið einnig hér á landi, en engin Covid-19 smit komu t.a.m. upp í tengslum við mótið. 

Dagskrá mótsins má finna hér.

Hægt er að fylgjast með heimsmeistaramótinu í Laugardal hér


Deila