Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. febrúar 2020

Hringrásarhugsun í íslensku atvinnulífi

Hringrásarhugsun í íslensku atvinnulífi
Grænvangur og Ungir umhverfissinnar héldu vel heppnaða vinnustofu 19. febrúar sl. á Grand Hótel Reykjavík þar sem rúmlega 40 manns mættu og ræddu hringrásarhugsun í íslensku atvinnulífi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði gesti og sagði hringrásarhagkerfið vera hugsunarhátt 21. aldarinnar, að það væri „kominn tími til að segja skilið við óþarfa sóun og, svo ég segi það pent, bjarga heiminum okkar

Þátttakendur hlýddu á þrjú fræðandi erindi í kjölfarið, en á milli þeirra fóru fram stuttar vinnulotur þar sem áskoranir, tækifæri, styrkleikar og veikleikar viðfangsefnis erinda voru skilgreind.

Mælendur voru Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, Gyða S. Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni og samfélagsábyrgð á umverfis- og fræðsludeild SORPU og Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU verkfræðistofu. Fundarstjórar voru Birta Kristín Helgadóttir hjá Grænvangi og Þorgerður María Þorbjarnardóttir hjá Ungum umhverfissinnum.

Birgitta ræddi stuttlega innri rekstur fyrirtækja en lagði megináherslu á mikilvægi þess að umbreyta viðskiptamódeli fyrirtækja. „Vandamálið er að við notum of mikið af auðlindum og við notum þær ekki vel, útskýrði Birgitta og sagði ennfremur að hringrásarhagkerfið ætti að koma í veg fyrir að úrgangur yrði til og að fyrirtæki sem vilja temja sér hringrásarhugsun ættu að bjóða upp á þjónustu frekar en vöru, t.d. að bjóða upp á prentþjónustu í stað þess að selja prentara.

Gyða kynnti sóknarfæri í sorpi frá íslensku atvinnulífi ásamt gas- og jarðgerðarstöð SORPU sem mun hefja starfsemi í lok árs, en með tilkomu hennar mun fyrirtækið ná 70% endurnýtingarhlutfalli. Hún talaði sérstaklega um lífrænan úrgang og að best væri að draga úr tilurð hans en að við þyrftum jafnframt að vita hvað við myndum gera við þann lífræna úrgang sem fellur til. Markmið SORPU er að hætta urðun á brennanlegum og lífrænum úrgangi í lok þessa árs.

Helga Jóhanna talaði um hvernig megi nýta úrgang sem vöru annarsstaðar. Hún kynnti mikilvægi þess að fyrirtæki hefðu umhverfisstefnu og lagði ennfremur áherslu á að nota vottaðar aðferðir. Hún benti á mikilvægi þess að hugsa um alla virðiskeðjuna og að framkvæma vistferilsgreiningar til að gera grein fyrir kolefnisspori hverrar vöru. Hún talaði einnig um að nauðsynlegt væri að hafa skýrar upplýsingar og gögn til að vinna úr og kynnti lauslega verkefni sem EFLA hefur komið að sem miða að því að upplýsa neytendur um kolefnisspor sitt, t.d. Matarsporið og Kolefnisreikninn. 

Á milli erinda sköpuðust líflegar umræður og hugmyndir settar fram um hvernig mætti gera betur í tengslum við hringrásarhagkerfið á Íslandi. Hugmyndir og niðurstöður vinnustofunnar verða teknar saman í stutta skýrslu. Verkefnastjórn aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum mun taka við niðurstöðum úr vinnulotum fundarins sem teknar verða til greina við endurskoðun áætlunarinnar.


Deila