Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
23. janúar 2020

Hvernig tökum við á móti ferðamönnum frá Kína?

Hvernig tökum við á móti ferðamönnum frá Kína?
Íslandsstofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök Verslunar og þjónustu, Ferðamálastofa og Íslensk-kínverska viðskiptaráðið stóðu fyrir fundi um ferðamenn frá Kína þann 22. janúar á Grand hótel.

Upphaflega var fundurinn boðaður hjá kínverska sendiráðinu en vegna mikillar aðsóknar varð að færa hann yfir í stærri sal, en um 260 gestir sóttu viðburðinn.

Á fundinum hélt sendiherra Kína á Íslandi Hr JIN Zhijian erindi. Þar kom m.a. fram að mikil fjölgun hefur verið á ferðamönnum frá Kína á síðustu árum og með vorinu munu tvö flugfélög hefja beint flug á milli Íslands og Kína, þannig að búast má við frekari aukningu.

Thea Hammerskov, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Visit Copenhagen sagði frá því sem þau hafa verið að gera varðandi markaðssetningu á Kaupmannahöfn til kínverskra ferðamanna og kynnti jafnframt Chinavia fræðsluefnið sem auðvelda á fyrirtækjum að mæta þörfum þeirra og væntingum. Efnið er aðgengilegt á netinu og tilvalið fyrir íslensk fyrirtæki að nýta sér það: Sjá Chinavia hér   

Ársæll Harðarson, svæðisstjóri Icelandair í Asíu hefur unnið á þessum markaði í fjölmörg ár og miðlaði hann af reynslu sinni og þekkingu varðandi markaðssetningu í Kína.

Að lokum sagði Grace – Jin Liu frá sinni reynslu af kínverskum ferðamönnum, en Grace hefur verið leiðsögumaður á Íslandi um árabil og farið í ferðir með ferðamönnum frá þessum markaði.

Fundinum var streymt á Facebook síðu Ferðamálastofu og má sjá myndbandið hér að neðan. Þar er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum og við hvetjum alla áhugasama til að horfa.


Fræðslunámskeið - þjónusta við kínverska ferðamenn

Eftir hádegi var boðið upp á fræðslunámskeið þar sem farið var yfir praktísk atriði í þjónustu við kínverska ferðamenn, en Lee Ann Hollesen frá Wonderful Copenhagen sem var fyrirlesari á námskeiðinu. Þessi hluti var í samstarfi Íslandsstofu og Ferðamálastofu sem vinna saman að því að efla hæfni íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja til að þjónusta þennan mikilvæga og ört vaxandi markað.


Deila