Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. maí 2015

Icelandair Group hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015

Icelandair Group hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015
Síðastliðinn föstudag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fyrirtækinu Icelandair Group Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Verðlaunin fær Icelandair Group fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í að laða til landsins erlenda gesti og greiða för landsmanna til annarra landa. Leiðakerfi Icelandair er undirstaða velgengi fyrirtækisins og ein forsenda þess vaxtar sem verið hefur í ferðaþjónustunni hér á landi. Til marks um hversu vel hefur til tekist má nefna að í sumar munu 24 flugvélar fyrirtækisins sinna tæplega 40 áfangastöðum í Norður Ameríku og Evrópu og flytja um þrjár milljónir farþega milli landa.

Icelandair Group er nú eitt stærsta fyrirtæki landsins. Hjá því starfa tæplega 4000 manns þegar mest lætur. Heildartekjur samstæðunnar námu ríflega 1,1 milljarði bandaríkjadala á árinu 2014, eða um 140 milljörðum íslenskra króna og jukust um 9% á milli ára. Hagnaður jókst um 18% milli ára og varð um 67 milljónir bandaríkjadala. Hefur arðbær rekstur undanfarinna ára verulega styrkt fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Þó svo að vöxtur félagsins síðustu ár stafi einkum af auknum fjölda ferðamanna sem Icelandair flytur yfir sumartímann, þá hefur félagið eftir sem áður lagt megináherslu á að fjölga ferðamönnum á Íslandi að vetri til. Þannig hefur framboð flugferða yfir vetrartímann verið aukið hlutfallslega mest og í markaðs- og kynningarstarfinu hefur Ísland verið kynnt sem heilsársáfangastaður.

Búast við áframhaldandi vexti á komandi árum

Icelandair Group hefur á undanförnum árum náð að nýta sér ný sóknarfæri á eftirtektarverðan hátt og til dæmis hafið flug á leiðum sem aðrir höfðu gefist upp á. Hefur félagið náð að vaxa hratt á undanförnum árum en samt er markaðshlutdeild félagsins á Norður-Atlantshafsmarkaðnum enn ekki nema um 1%.

Þess vegna telja forsvarsmenn fyrirtækisins ástæðu til að vera bjartsýnir um áframhaldandi vöxt og viðgang á komandi árum. Hafa þeir uppi áætlanir um að taka í notkun nýjar, stærri og langdrægari flugvélar, sem munu gera félaginu kleyft  að fjölga áfangastöðum enn frekar. Enn fremur munu minni flugvélar bætast í flotann á næstu árum og fjölbreytni hans aukast enn frekar, að þeirra sögn.

Arnaldur Indriðason heiðraður fyrir störf sín

Arnaldur Indriðason, rithöfundur, fékk sérstaka heiðursviðurkenningu við sama tilefni. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. 

Verðlaunagripurinn

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af  Dagnýju Magnúsdóttur glerlistarkonu og heitir verkið Vegferð.  Um verk sitt segir listamaðurinn:

„Í verkinu er horft af himni til hafs. Ólgandi kraftar náttúrunnar ber fyrir augu þegar ólík öfl kalla fram fegurð og mikilfengleika. Undir yfirborðinu, sem virðist meinlaust og friðsælt, ólgar krafturinn sem slípar grjótið og þar velkist sandurinn sem er uppistaða glersins. Glerið tekur á sig mismunandi myndir eftir því hvernig horft er í gegnum það og minnir okkur á víðsýni og óþrjótandi möguleika á vegferð þekkingar og framkvæmda."

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 27. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Bláa lónið, Össur, Hampiðjan, Samherji og Ferðaskrifstofa bænda og á síðasta ári hlaut kvikmyndafyrirtækið Truenorth verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Hreggviður Jónsson, frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands, og Vilborg Einarsdóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Deila