Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. september 2011

Inspired by Iceland vinnur til verðlauna

Íslenska auglýsingastofan og Íslandsstofa fengu aðalverðlaun (Grand Prix) og gullverðlaun á Euro Effie auglýsingahátíðinni í Brussel í gærkvöldi fyrir Inspired by Iceland herferðina.



Tuttugu manna dómnefndin veitti aðalverðlaunin (Grand Prix) fyrir framúrskarandi árangur Inspired by Iceland herferðarinnar. Gullverðlaunin hlaut verkefnið fyrir áhrifaríkustu notkun samfélagsmiðla, sem er einn af fimm keppnisflokkum Euro Effie.

Effie eru virtustu og eftirsóttustu verðlaun sem veitt eru í auglýsingageiranum, sambærileg við Óskarsverðlaun í kvikmyndum. Samtök evrópskra boðmiðlunarfyrirtækja (EACA) standa að veitingu Effie verðlaunanna, en þau hafa aðsetur í Brussel.

Euro Effie verðlaunin fyrir 2011 voru afhent við hátíðlega athöfn í Albert Hall í Brussel. Á móti verðlaununum tóku Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar hjá Íslandsstofu, Kristján Schram markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni, Atli Freyr Sveinsson framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar og George Bryant frá Brooklyn Brothers auglýsingastofunni, sem hefur starfað með Íslendingum að þessu verkefni. Þess má geta að Brooklyn Brothers fékk einnig verðlaun sem auglýsingastofa ársins 2011.

Auk framlags Íslandsstofu og Íslensku auglýsingastofunnar kepptu auglýsingaherferðir fyrir mörg af þekktustu vörumerkjum heims um Euro Effie verðlaunin. Þar á meðal má nefna Peugeot, Fiat, Nikon, Finnair, Mercedes-Benz, Wrigley, Visit Scotland, Audi, Toyota og Procter&Gamble.
 
Fyrr á þessu ári hlutu Íslenska auglýsingastofan og Íslandsstofa tilnefningu til Global Effie verðlaunanna fyrir Inspired by Iceland herferðina. Skilyrði þeirra verðlauna er að herferðin hafi farið fram í a.m.k. fjórum löndum og tveimur heimsálfum. Þetta var í fyrsta skipti sem íslensk auglýsingaherferð hefur komist svo langt á alþjóðavettvangi, þó ekki hafi hún komist á verðlaunapall í það skiptið.

Deila