Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. janúar 2015

Ísland valið áfangastaður ársins á MATKA ferðakaupstefnunni í Finnlandi

Ísland valið áfangastaður ársins á MATKA ferðakaupstefnunni í Finnlandi
Stærsta ferðakaupstefna Norður Evrópu, MATKA, hófst í morgun í Finnlandi. Ísland var þar valið sem erlendur áfangastaður ársins af samtökum finnskra ferðablaðamanna (Finnish Guild of Travel Journalists), sem í eru 60 helstu ferðablaðamenn Finnlands.

Stærsta ferðakaupstefna Norður Evrópu, MATKA, hófst í morgun í Finnlandi. Ísland var þar valið sem erlendur áfangastaður ársins af samtökum finnskra ferðablaðamanna (Finnish Guild of Travel Journalists), sem í eru 60 helstu ferðablaðamenn Finnlands.

Þorleifur Þór Jónsson tók á móti verðlaununum fyrir hönd Íslandsstofu en með honum á myndinni er Pekka Mäkinen svæðisstjóri Icelandair ásamt öðrum verðlaunahöfum sem hlutu verðlaun fyrir innanlands áfangastaði.

Þorleifur sagði verðlaunin sýna hvað Ísland væri búið að koma sér vel á kortið í Norður Evrópu. „Það eru 14 ár síðan reglubundið flug hófst frá Helsinki til Íslands, fyrst eingöngu sem sumarflug, en núna er flogið allt árið og eru allt að ellefu brottfarir á viku yfir háönnina. Það er því mikil sókn á þessum markaði,“ segir Þorleifur, sem stóð vaktina á þjóðarbás Íslandsstofu þar sem níu ferðaþjónustufyrirtæki frá Íslandi taka þátt; Elding, Iceland Travel, Íshestar, Íslandshótel, Keahótel, Reykjavík Excursions, Snæland Grímsson og Icelandair.

Að sögn Þorleifs er það sambland hrífandi menningar, fjölbreytilegra áfangastaða og skapandi ferðaþjónustu sem virðast hrífa einna mest ef marka má kaupstefnugestina. Þá hefur sú vinna sem aðilar ferðaþjónustunnar hafa lagt í síðustu árin einnig skilað sér vel en þannig hefur tekist að vekja eftirtekt og halda Íslandi ofarlega í hugum fólks með samstilltu átaki.

„Ísland er í hugum margra ekki beinlínis áfangastaður heldur miklu frekar hluti af ferðalaginu sjálfu og þeim upplifunum sem því fylgja. Ísland er þannig spennandi, framandi og miklu stærri hluti af lífi fólks en margir aðrir staðir – og Ísland missir ekki það hlutverk eftir að ferðalaginu líkur. Tengslin halda sér“ segir Þorleifur. 

Hér að neðan má sjá mynd af íslenska básnum á MATKA

Deila