Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. janúar 2020

Ísland vinsæll áfangastaður hjá Hollendingum

Ísland vinsæll áfangastaður hjá Hollendingum
Ferðasýningin Vakantiebeurs stendur nú sem hæst í Utrecht í Hollandi.

Að þessu sinni eru átta fyrirtæki með Íslandsstofu á þjóðarbási Íslands; Grayline, Hótel Fljótshlíð, Iceland Travel, Icelandic Mountain Guides, Katla DMI, KEA Hótel, Smyril Line, og V.O.S., ásamt Markaðsstofu Norðurlands.

Líkt of undanfarin ár þá er einn dagur tileinkaður fagaðilum en fjórir dagar eru svo opnir neytendum. Á Íslandsbásnum hefur sú hefð orðið til að bjóða til lítillar veislu í lok fyrsta dags þar sem fólk fær að bragða á íslenskum matvælum og spjalla við þátttökufyrirtækin. Þetta hefur mælst afar vel fyrir og er vel sótt á hverju ári.

Ísland hefur fest sig rækilega í sessi hjá Hollendingum og má segja að í ár hafi aðsóknin verið með besta móti á Íslandsbásinn þar sem bæði fagaðilar og neytendur sóttu upplýsinga til þeirra fyrirtækja sem voru á staðnum.

Hollendingar sýna íslenskri náttúru gríðarlegan áhuga og vilja dvelja í lengri tíma í senn, keyra um allt landið og koma til landsins jafnt með flugi og ferju. Árið 2019 komu 43 þúsund hollenskir ferðamenn til Íslands.

Vakantiebeurs er stærsta ferðasýningin á þessu markaðssvæði. Sýningin sem ætluð er bæði fagaðilum og neytendum fagnar í ár 50 ára afmæli og er því búin að festa sig rækilega í sessi.


Deila