Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. apríl 2012

Íslandskynning í Chongqing og Peking

Fjögur íslensk ferðaþjónustufyrirtæki kynntu starfsemi sína í kínversku borgunum Chongqing og Peking um helgina.

Um 50 manns frá kínverskum ferðaskrifstofum mættu á hvorn viðburð þar sem fjallað var um Ísland sem áfangastað með ræðum, fundum og sýningu ferðamálamyndbanda frá verkefninu Inspired by Iceland.

Fyrirtækin sem um ræðir voru Iceland Travel, Allrahanda, Icelandair og Hotels of Iceland en síðastnefnda er skrifstofa Foss- og Reykjavíkurhótela í Kína. Meðal þess sem starfsmenn kínveskra ferðaskrifstofa spurðu um á kynningunum voru einstaklings- og hópferðir, vegabréfsáritanir, valmöguleikar í flugtengingum til Íslands, ráðstefnuhald og hvataferðir.
 
 
Sendiráðið í Peking og Íslandsstofa, sem önnuðust kynningarnar, hafa nú unnið saman að því í rúmlega ár að kynna íslenska ferðaþjónustu fyrir kínverskum ferðaskrifstofum og neytendum. Markaðsstarfið hefur hingað til einskorðast við útgáfu kynningarefnis og þátttöku í ferðasýningum. Viðburðirnir í Chongqing og Peking gáfu tækifæri til að kynna Ísland sem áfangastað eitt og sér og þar gátu íslensku fyrirtækin átt fundi með kínverskum systurfyrirtækjum sínum eftir kynningarnar.
 
Í Chongqing átti Þorleifur Þór Jónsson, sem sér um fjarmarkaði í kynningarstarfi Íslandsstofu á íslenskri ferðaþjónustu, fund með vara-framkvæmdastjóra ferðamálastofu Chongqing. Menningar- og viðskiptafulltrúi sendiráðsins, Hafliði Sævarsson, skipulagði viðburðina fyrir hönd sendiráðsins.
Um 9000 kínverskir ferðamenn sóttu Ísland heim síðasta sumar samkvæmt talningu Ferðamálastofu á brottförum um Leifsstöð. Er það sjötíu prósenta aukning miðað við árið á undan. Vonir standa til að fjölga megi kínverskum ferðamönnum til Íslands enn frekar en hugur sífleiri Kínverja stendur til utanfara samfara auknum kaupmætti í landinu.

Deila