Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. mars 2015

Íslandsstofa á meðal styrktaraðila Gulleggsins 2015

Íslandsstofa á meðal styrktaraðila Gulleggsins 2015
Úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu voru kynnt við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands um síðastliðna helgi. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti Gulleggið 2015 og ýmis aukaverðlaun voru afhent til þeirra tíu teyma sem kepptu til úrslita.
Á myndinni er Andri Marteinsson, forstöðumaður sviðs iðnaðar og þjónustu hjá Íslandsstofu ásamt teymi Mekano.

Úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu voru kynnt við hátíðlega athöfn  í Háskóla Íslands um síðastliðna helgi. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti Gulleggið 2015 og ýmis aukaverðlaun voru afhent til þeirra tíu teyma sem kepptu til úrslita.

Íslandsstofa hefur um árabil verið á meðal styrktaraðila Gulleggsins. Stuðningurinn hefur falist í ráðgjöf, setu í dómnefnd keppninnar og hefur Íslandsstofa einnig veitt aukaverðlaun sem felast í útflutningþjónustu fyrir aðstandendur eins verkefnis. Verðlaunin fóru að þessu sinni til Mekano ehf., sem í ár varð einnig  í öðru sæti Gulleggsins. Mekano ehf. er sprotafyrirtæki sem byggir hugmyndafræði sína meðal annars á þróun nýrrar tækni á fjöltengjum með sérstaka áherslu á aðgengilega, einfalda og stílhreina hönnun. Fyrirtækið býður upp á fjölbreytt úrval eininga til samsetningar, þar á meðal tengla, USB hleðslueiningar, spennubreyta og fleira.

Fyrstu verðlaun Gulleggsins 2015 fóru til Strimilsins sem hefur það að markmiði að gera upplýsingar  um matvöruverð á Íslandi aðgengilegar á netinu. Sem fyrr segir lenti Mekano ehf. í öðru sæti en þriðja sæti hlaut verkefnið Crowbar Protein. Keppninni í ár bárust um 250 hugmyndir og á bak við þær stóðu um 500 einstaklingar. Keppnin hefur staðið yfir í tæpa tvo mánuði þar sem þátttakendur hafa sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Tíu stigahæstu hugmyndirnar kepptu til úrslita.

Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en síðan þá hafa um 2000 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg starfandi fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni og má þar m.a. nefna Meniga, Controlant, Cooori, Karolina Fund, Róró og fleiri.  Gulleggið er haldið af Klak Innovit nýsköpunar og frumkvöðlasetri, en einnig koma að keppninni 14 sjálfboðaliða verkefnisstjórn frá samstarfsháskólunum, bakhjarlar og samstarfsaðilar.

Deila