Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
4. mars 2016

Íslenskar nýjungar og fjölbreytt dagskrá í Boston

Íslenskar nýjungar og fjölbreytt dagskrá í Boston
Stór hópur íslenskra fyrirtækja kynnir vörur sínar og þjónustu í Boston á næstu dögum með stuðningi Íslandsstofu. Á sjávarútvegssýningunni, sem stendur yfir dagana 6.- 8. mars, hefur Íslandsstofa umsjón með þátttöku tæplega 30 íslenskra fyrirtækja sem þar kynna sjávarafurðir, tæki og þjónustu sína.

Stór hópur íslenskra fyrirtækja kynnir vörur sínar og þjónustu í Boston á næstu dögum með stuðningi Íslandsstofu. Á sjávarútvegssýningunni, sem stendur yfir dagana 6.- 8. mars, hefur Íslandsstofa umsjón með þátttöku tæplega 30 íslenskra fyrirtækja sem þar kynna sjávarafurðir, tæki og þjónustu sína. Á tæknihluta sýningarinnar verða í fyrsta skipti kynntar undir yfirskriftinni „Iceland Fish and Ships“ fjölbreyttar lausnir íslenskra fyrirtækja tengdar veiðum og vinnslu sjávarafurða. Þá verða sameiginlegir hagsmunir íslenskra útflytjenda sjávarafurða kynntir á afurðahluta sýningarinnar undir merkjum „Iceland Responsible Fisheries“. Á sama tíma fer fram í borginni kynning á íslenskum mat og menningu á vegum „Iceland Naturally“.

Sjávarútvegssýningin í Boston er stærsta sýning sinnar tegundar í Norður-Ameríku og sækja hana um 20.000 manns. Þátttakendum frá Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu ár auk þess sem fjöldi gesta frá Íslandi sækir sýninguna heim. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra heimsækir sýninguna á opnunardaginn og hittir íslensku fyrirtækin.

Ný leið til þátttöku

„Iceland Fish and Ships“ er verkefni sem Íslandsstofa hefur unnið að í samstarfi við Íslenska sjávarklasann. Auk þess að vera almenn kynning á íslenskum lausnum gefur verkefnið fyrirtækjum kost á að taka beinan þátt undir þessum sameiginlega hatti eftir tveimur mismunandi leiðum. Annars vegar eiga þau fulltrúa á sýningunni og verða með aðstöðu á íslenska básnum og hins vegar sjá starfsmenn Íslandsstofu og klasans um að kynna lausnir þeirra og dreifa kynningarefni. Með þessum hætti er fleiri fyrirtækjum gert kleift að taka þátt. Sex fyrirtæki sýna undir merkjum „Iceland Fish and Ships“ í Boston: Borgarplast,  Hampiðjan, Kælismiðjan Frost, Navis, TrackWell og Wise. Að auki kynna fyrirtækin Skaginn 3X, Valka, Martak, Héðinn og Optimar kynna vörur sínar og þjónustu á básnum.

Kynna sameiginlega ferskleika íslenskra sjávarafurða

Útflutningur sjávarafurða og eldisfisks til Norður Ameríku hefur farið vaxandi síðustu ár og hlutdeild í heildarútflutningi sjávarafurða aukist nokkuð. Þorskur er nærri 50% útflutnings og hefur útflutningur á ferskum afurðum aukist mikið, bæði til Bandaríkjanna og Kanada.

Á afurðahluta sýningarinnar eru sameiginlegir hagsmunir íslenskra útflytjenda sjávarafurða kynntir undir merkjum „Iceland Responsible Fisheries“ með áherslu á vottun íslenskra fiskistofna og ábyrgar fiskveiðar. Átta íslenskir framleiðendur og útflytjendur sjávarafurða sem njóta þjónustu viðskiptafulltrúans í New York og Íslandsstofu kynna afurðir sínar og þjónustu undir yfirskriftinni „Fresh or Frozen – Sourcing from Iceland“. Þetta eru HB Grandi, Skinney Þinganes, Iceland Seafood, Fishland Seafood, Novo Food, Menja, Ice-Co og Matís. Þetta er í þriðja sinn sem afurðafyrirtæki nýta sér samstarfið við viðskiptafulltrúann og Íslandsstofu með þessum hætti og hefur árangurinn af fyrri sýningum verið góður.

Taste of Iceland

Íslenskur matseðill verður í boði á veitingastaðnum The Merchant í Boston dagana 4.-7. mars, en þá stendur yfir kynning á mat og menningu í borginni á vegum Iceland Naturally. Þar mun Þráinn Freyr Vigfússon, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og matreiðslumeistari á veitingastaðnum LAVA í Bláa Lóninu, elda í samstarfi við Matt Foley, yfirmatreiðslumeistara staðarins. Á matseðlinum er m.a. pönnusteiktur, léttsaltaður þorskur og humar. 

Nánari upplýsingar veita:
Andri Marteinsson andri@islandsstofa.is (Iðnaður og þjónusta),
Guðný Káradóttir gudny@islandsstofa.is (Matvæli, sjávarútvegur og landbúnaður) og Berglind Steindórsdóttir, berglind@islandsstofa.is (Sýningar) sími 511 4000.
Viðskiptafulltrúi Íslands í New York er Hlynur Guðjónsson hlynur.gudjonsson@utn.stjr.is

Deila