Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. mars 2016

Íslenski hesturinn: Undirritun samnings um fjármögnun til fjögurra ára

Íslenski hesturinn: Undirritun samnings um fjármögnun til fjögurra ára

Samfélag íslenska hestsins hefur tekið höndum saman um markaðsverkefni til að auka verðmætasköpun sem byggir á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki, Horses of Iceland. Í dag var undirritað samkomulag um fjármögnun og þátttöku fjölmargra aðila í verkefninu næstu fjögur árin.

Um er að ræða markaðssamstarf sem nýtist heildarhagsmunum í að byggja upp orðspor íslenska hestsins, til að leggja grunn að auknum gjaldeyristekjum af sölu á hestinum sem og vörum og þjónustu honum tengdum. Samstarfið mun tryggja samræmd skilaboð í markaðs- og kynningarstarfi, meiri slagkraft og fókus í kynningunni með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Víðtæk samvinna til langs tíma lykill að árangri

Frumkvæði að auknu markaðsstarfi kom frá Félagi hrossabænda og Landssambandi hestamannafélaga sem leituðu samstarfs við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Íslandsstofu. Stefnumörkun verkefnisins var unnin á liðnu ári með víðtækri þátttöku aðila úr hestasamfélaginu. „Við höfum heilmiklar væntingar til verkefnisins og trú á að hægt sé að gera góða hluti með því að standa saman að verkefninu“ segir Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda. Hann segir þetta samstarf og samning um fjármögnun til framtíðar mikilvægt fyrir greinina alla enda um langtímaverkefni að ræða.

Sýn verkefnisins er að er að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem hesturinn sem færir fólk nær náttúrunni. Stoðir vörumerkisins, eða sögurnar sem miðlað er í markaðsstarfinu, eru af reiðhestinum, geðslagi hans og einkennum, tengslum hans við sögu Íslands og menningu, ævintýri og félagsskap úti í náttúrunni, og fagmennsku í Íslands-hestamennsku um heim allan. Unnið verður að því að auka sýnileika hestsins í umhverfinu og nýta m.a. vef- og samfélagsmiðla til að virkja fólk til að miðla reynslu sinni og upplifun af hestinum.

Það er Íslandsstofa sem sér um framkvæmd verkefnisins og starfar með verkefnisstjórn sem skipuð er fulltrúum úr hestasamfélaginu, Félagi hrossabænda (FHB), Landssambandi hestamannafélaga (LH) og Félagi tamningamanna (FT), úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningar­málaráðuneyti, fulltrúa útflytjenda íslenska hestsins og úr Samtökum ferðaþjónustunnar.

Allt að 50 mkr á ári til fjögurra ára

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tryggt verkefninu allt að 25 milljónir króna í fjögur ár gegn sama framlagi frá fyrirtækjum, félögum og hagsmunaaðilum. „Það er ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu sem náðst hefur um að fanga þann kraft sem býr í hestasamfélaginu til góðra verka í þessu mikilvæga verkefni, að lyfta merki íslenska hestsins hærra á heimsvísu, og gera hann verðmætari, bæði í samfélagi manna og sem grunn að auknum viðskiptum“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá lýsir hann yfir ánægju með að verkefnið sé unnið með Íslandsstofu sem hefur reynslu af rekstri markaðsverkefna til kynningar á vörum og þjónustu á erlendum mörkuðum.

Gert er ráð fyrir að ráðstöfunarfé markaðssamstarfsins verði allt að 50 milljónir króna árlega og verður því fé ráðstafað samkvæmt verkefnaáætlun sem unnin verður með aðkomu þátttakenda og verkefnisstjórn staðfestir.

Samtök og félög sem hafa verið í fararbroddi fyrir verkefninu, Félag hrossabænda, Landssamband hestamannafélaga og Félag tamningamanna, eru aðilar að þessum samningi, með framlagi til fjögurra ára. Íslandsstofa leggur verkefninu til krafta verkefnisstjóra og aðstöðu. Fjölmargir aðrir, fyrirtæki samtök og ræktunarbú, hafa ákveðið að nýta þetta tækifæri og staðfest þátttöku sína í verkefninu, en það eru Icelandair Cargo, Export Hestar, Hrímnir, Sólhestar, Friðheimar, Litla-Brekka, Hrafntinna ehf, Hraun í Ölfusi, Skjaldarvík, Fornhagi, Vellir, Kjarr, Hrossaræktarsamtök Suðurlands, hestaleigan Íslenski hesturinn, Barki og Lýsi. Bjóðum við nú fleiri velkomna að taka þátt í þessu víðtæka samstarfi.

Boð um þátttöku og samstarf í verkefninu

Aðilum sem rækta íslenska hestinn, framleiða hestavörur eða selja þjónustu tengda hestinum býðst að taka þátt í verkefninu sem og samtökum þessara aðila. Einnig geta aðrir sem eru tilbúnir að taka þátt í verkefninu fjárhagslega, s.s. þjónustuaðilar, birgjar og stofnanir eða félög, gerst aðilar að verkefninu. Þátttakendum býðst að taka þátt í að móta áherslur verkefnisins og fylgjast með framgangi þess og njóta ýmiss ávinnings af þátttökunni.

Lögð verður áhersla á notkun stafrænnar miðlunar á vef og samfélagsmiðlum, almannatengsl og útgáfu kynningarefnis sem byggir á grunnstoðum verkefnisins. Þá mun verða lögð áhersla á samlegð í kynningarstarfi Íslandsstofu við aðrar greinar, s.s. ferðaþjónustu og við kynningu á íslenskri menningu.

Deila