Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. janúar 2017

Íslenskir listamenn á menningarhátíðinni Nordic Matters í London

Íslenskir listamenn á menningarhátíðinni Nordic Matters í London
Norræn menning og listir verða í brennidepli hjá Southbank Centre í London allt árið 2017 á menningarhátíðinni Nordic Matters. Íslandsstofa, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og miðstöðvum skapandi greina vinna saman að þátttöku Íslands á hátíðinni.

Norræn menning og listir verða í brennidepli hjá Southbank Centre í London allt árið 2017 á menningarhátíðinni Nordic Matters. Southbank Centre er stærsta menningarmiðstöð Bretlands og stendur við hinn líflega suðurbakka Thames árinnar í miðborg London.

Bókmenntir, tónlist, dans, myndlist, hönnun, tíska, matvæli og arkitektúr verða á dagskránni auk þess sem hægt verður að fylgjast með fjölda fyrirlestra og málstofa.

Íslandsstofa, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og miðstöðvum skapandi greina vinna saman að þátttöku Íslands á hátíðinni. Íslandsstofa mun m.a. sinna kynningu á verkefninu í gegnum samfélagsmiðla, í samstarfi við hin Norðurlöndin.

Hátíðin hófst föstudaginn 13. janúar sl. þar sem dagskráin var formlega kynnt en þátttakendur munu síðan bætast í hópinn reglulega yfir allt árið.

Meðal þeirra sem munu taka þátt í verkefninu eru íslenski dansflokkurinn sem sýnir verk eftir Ernu Ómarsdóttur, Ragnar Kjartansson, Gabríelu Friðriksdóttur, Valdimar Jóhannsson og Matthew Barney (US). Sjón ritstýrir fyrsta safnriti um norrænar nútíma bókmenntir, gefið út af Pushkin Press og unnið í samstarfi við Neil Gaiman. Reykjavíkurdætur munu einnig koma fram á hátíðinni.

Nordic Matters vinnur með þrjú viðfangsefni: Börn og ungt fólk, jafnrétti kynjanna og sjálfbærni. Þessi viðfangsefni verða spunnin inn í lista- og menningarhátíðir miðstöðvarinnar árið 2017. Southbank Centre er listrænn stjórnandi og skipuleggjandi Nordic Matters með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni, sendiráðum Norðurlandanna í London, mennta- og menningarmálaráðuneytum Norðurlandanna og listamiðstöðvum landanna.

Nánari upplýsingar um dagskrá Nordic Matters má finna á vefsíðu Southbank Centre

Deila