Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
22. apríl 2016

Íslenskur sjávarútvegur kynntur í Brussel í 24. sinn

Íslenskur sjávarútvegur kynntur í Brussel í 24. sinn
Ísland hefur verið með frá upphafi á sjávarútvegssýningunum í Brussel og í ár eru 35 fyrirtæki að kynna afurðir, vörur og þjónustu á sýningunni sem er sú stærsta á sínu sviði í heiminum. Íslandsstofa skipuleggur þátttöku íslenskra fyrirtækja á tveimur þjóðarbásum.

Sýningarnar þær mikilvægustu á sínu sviði í heiminum


Sjávarútvegssýningarnar í Brussel
, afurðasýningin Seafood Expo Global og tækjasýningin Seafood Processing Global, eru nú haldnar í 24. sinn, dagana 26.-28. apríl. Ísland hefur verið með frá upphafi og skipuleggur Íslandsstofa þátttöku íslenskra fyrirtækja á tveimur þjóðarbásum, fimm íslensk fyrirtæki sýna á eigin vegum.

Í ár verða 745 fermetrar í umsjón Íslandsstofu og ný glæsileg hönnun á þjóðarbásunum mun styrkja ásýnd Íslands á sýningunni verulega. 

Á afurðasýningunni í höll nr. 6 sýna 20 aðilar: Ögurvík, Iceland Pelagic, Íslenska umboðssalan, Menja, Vinnslustöðin/About Fish, Vísir, Tríton, Félag atvinnurekenda, E. Ólafsson, Icelandic Export Center, G. Ingason, Icelandic Salmon, Ican, Ice-Co, Icemark, Matís, Novofood, Golden Seafood, Iceland Reponsible Fisheries og Íslandsstofa (bás nr. 834).

Á tækjasýningunni í höll nr. 4 eru á þjóðarbásnum Valka, Samskip, Skaginn, 3X Technology, Kapp-Optimar, Wise, Hampiðjan, Borgarplast, Héðinn og Eimskip. Sjálfstæðir sýnendur eru Icelandic Group, Iceland Seafood, Sæplast, Marel og Samherji. Cool Atlantic tímaritinu sem Athygli gefur út, verður dreift á sýningunni sem og Icelandic Times.

Íslensku aðilarnir kynna ýmsar nýjungar á sýningunni og er mikil sókn í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir sem einkennist af endurnýjun skipa í flotanum, innleiðingu tækninýjunga sem tryggja ferskleika afurðanna og lengra geymsluþol, bættir flutningar, fiskistofnar eru á uppleið, auk þess sem uppsveifla er í fiskeldi.  

Vinsamlegast hafið samband við Berglindi Steindórsdóttur sýningarstjóra varðandi nánari upplýsingar um sýninguna og þátttöku Íslands, berglind@islandsstofa.is, sími 824 4377.

Útflutningur sjávarafurða 2015 - helstu tölur*


Árið 2015 nam útflutningsverðmæti sjávarafurða samtals 265 milljörðum ISK sem er 8% aukning frá fyrra ári. Árið 2015 voru flutt út tæp 632.000 tonn samanborið við 654.000 tonn árið áður sem er samdráttur um 3,5%. Frystar afurðir skiluðu 47% heildarútflutningsverðmæta en voru 53% árið áður. Af einstökum tegundum er þorskurinn langverðmætastur, 38% af útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2015 (rúmlega 100 milljarðar ISK) en þar næst á eftir koma loðna (11%), karfi (5,7%) og ýsa (5,6%).

Árið 2015 var Bretland mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafuðir eins og síðustu ár með 18% af heildarútflutningi sjávarafurða. Vægi Bretlands hefur aftur á móti dregist saman síðustu árin því þangað fóru um 23-27% á árunum 2004-2009.  Verðmæti útflutnings til Frakklands heldur áfram að aukast á milli ára, 9% af heildarverðmætum árið 2015 en var 4% árið 2008. Ástæðan fyrir þessari aukningu til Frakklands er aukinn útflutningur á ferskum þorski en franski markaðurinn er í dag sá verðmætasti fyrir ferskan þorsk frá Íslandi. Þá má nefna að vægi Rússlands dregst mikið saman á milli 2014 og 2015 vegna lokunar þess markaðar vegna innflutningsbanns. Árið 2014 voru fluttar út sjávarafurðir til Rússlands fyrir tæpa 24 milljarða ISK en ári síðar aðeins rúmir 10 milljarðar ISK.

*Allar tölur sem notast var við erum frá Hagstofu Íslands. Tölurnar fyrir 2015 eru bráðabirgðatölur.
 

Deila