Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. október 2021

Krónprins Dana kynnti sér Græna framtíð

Krónprins Dana kynnti sér Græna framtíð
Ljóst er að aðeins með nýsköpun, samvinnu ríkja og nýjum grænum lausnum verður hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á alþjóðavísu.

Friðrik krónpins Dana heimsótti í gær margmiðlunarsýninguna Græna framtíð. Sýningin fjallar um framlag Íslands til loftslags- og orkumála. Hún gefur yfirlit yfir sögu síðustu aldar, markmið landsins til næstu þriggja áratuga og þær grænu lausnir sem í boði eru til að draga úr losun innanlands sem utan. Krónprinsinn lét afar vel af sýningunni og taldi hana gagnlegt innlegg í samtal þjóðanna tveggja um samstarf á sviði loftslagsmála.

Með í för krónprinsins voru meðal annarra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og ráðherrar beggja landanna, sem tóku þátt í fundi þar sem fjölmörg viðskiptatækifæri Íslands og Danmerkur á sviði grænna lausna voru reifuð. Ríkur vilji kom fram á fundinum um samvinnu landanna sem eru þó um margt ólík þegar kemur að orkumálum.

Ljóst er að aðeins með nýsköpun, samvinnu ríkja og nýjum grænum lausnum verður hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á alþjóðavísu.

Græn framtíð er starfrækt af Grænvangi og Íslandsstofu og er innan veggja nýrrar skrifstofu Íslandsstofu og Grænvangs í Vatnsmýri.

Á myndinni hér að ofan eru Friðrik krónprins og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að prufa sýninguna og líkaði vel. Undir traustri handleiðslu Eggert Benedikts Guðmundssonar, forstöðumanns sýningarinnar, sem fylgdi þeim um sýningarsvæðið.

Gestir Grænnar framtíðar taka virkan þátt í sýningunni og geta kallað fram fjölbreytt og fræðandi efni með því einu að benda á tiltekna hluta sýningarinnar. Krónprinsinn sýndi sýningunni mikinn áhuga auk annarra gesta.

Deila