Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. júní 2015

Kynningarfundur fyrir portúgalska fjölmiðla og stærsta saltfiskkaupanda Portúgals

Kynningarfundur fyrir portúgalska fjölmiðla og stærsta saltfiskkaupanda Portúgals
Á dögunum komu hingað til lands forsvarsmenn portúgalska fyrirtækisins Riberalves sem er stærsti kaupandinn á íslenskum saltfiski í Portúgal.

Á dögunum komu hingað til lands forsvarsmenn portúgalska fyrirtækisins Riberalves sem er stærsti kaupandinn á íslenskum saltfiski í Portúgal. Ferðin var farin í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins og voru með í för fjölmiðlamenn frá helstu miðlum Portúgals sem vildu kynna sér Ísland, og sér í lagi íslenskan fisk. Íslandsstofa hefur nú á þriðja ár séð um framkvæmd markaðsverkefnis fyrir þorskafurðir í Portúgal, á Spáni og Ítalíu sem er unnið með Félagi íslenskra saltfiskframleiðenda og fyrirtækjum í greininni, og tengdist heimsóknin því verkefni. 

Íslandsstofa skipulagði kynningarfund fyrir portúgölsku gestina í Háskólanum í Reykjavík. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra ávarpaði fundinn og kom m.a. inn á mikilvægi saltfiskviðskipta á milli landanna, en þau eiga sér langa sögu. Katrín Ólafsdóttir, lektor í viðskiptadeild HR, fjallaði um efnahagsmálin á Íslandi frá hruni til dagsins í dag og vakti erindið mikinn áhuga portúgölsku fjölmiðlanna.
Aðrir framsögumenn voru Guðný Káradóttir og Sigríður Ragnarsdóttir frá Íslandsstofu, Níels A. Guðmundsson frá Iceland Seafood, sem er eitt af tuttugu og fjórum fyrirtækjum í saltfiskverkefninu, og Ricardo Alves frá Riberalves. Alves kvað fyrirtækið velja íslenskan fisk vegna gæðanna og áreiðanleika í viðskiptum við Íslendinga. Hann sagði einnig að Riberalves áformi að kynna í auknum mæli íslenskan uppruna afurðanna sem það selur undir eigin vörumerki. 

Á meðan ferðinni stóð heimsótti hópurinn fiskvinnslur, fór í sjóferð og í Bláa Lónið, auk þess að kynna sér íslenska náttúru, mat og matarmenningu. 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá kynningarfundinum. 

Deila