Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. nóvember 2013

Markaðsrannsóknir mikilvægar þegar velja á nýjan markað

Markaðsrannsóknir mikilvægar þegar velja á nýjan markað
Færri komust að en vildu á vinnustofu Íslandsstofu sem haldin var á Hilton Reykjavik Nordica í gær og fjallaði um fyrstu skrefin í útflutningi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Færri komust að en vildu á vinnustofu Íslandsstofu sem haldin var á Hilton Reykjavik Nordica í gær og fjallaði um fyrstu skrefin í útflutningi.

Þegar hugað er að útflutningi er mikilvægt að vita hvaða markaður hentar best þeirri vöru eða þjónustu sem á að markaðssetja en á vinnustofunni var leitast við að svara helstu spurningum þessu tengdu. Í upphafi fundar kynnti Björn H. Reynisson þá þjónustu Íslandsstofu sem miðar að því að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga í útflutningshugleiðingum eða eru nú þegar að flytja út vörur eða þjónustu. 
 
Þá kynntu fulltrúar fyrirtækjanna sig stuttlega fyrir öðrum þátttakendum og var gaman að sjá hversu breið flóra fyrirtækja var þarna samankomin, allt frá framleiðendum gosdrykkja og tölvuleikja til fyrirtækja í heilsuvöruframleiðslu og tískuhönnun, svo dæmi séu tekin. Fyrirtækin voru mörg hver þegar í útflutningi og hugðust rifja upp þekkingu sína á efninu og viða að sér nýjum upplýsingum, meðan önnur voru að stíga sín fyrstu skref á erlendum markaði.

Mark Dodsworth, eigandi ráðgjafafyrirtækisins Europartnerships í Bretlandi, stýrði vinnustofunni og lét hann viðstadda leysa ýmis verkefni tengd viðfangsefninu. Mark ræddi m.a. um mikilvægi markaðsrannsókna og sagði að innsæið eitt og sér væri ekki nægilegt þegar fara á inn á ákveðinn markað, heldur þurfa áreiðanlegar upplýsingar um markaðinn að ráða mestu þar um. Hann sagði að rannsóknir sem þessar gætu komið í veg fyrir dýr mistök og sparað tíma og fjármagn,  jafnvel þó að í ljós komi að markaðurinn sé ekki heppilegur fyrir tiltekna vöru eða þjónustu. Þá kom Mark með nokkur hagnýt ráð um hvernig best er að standa að upplýsingaöflun án þess að "drukkna" og gaf dæmi um fáar en góðar upplýsingaveitur. Þá var þátttakendum skipt í nokkra hópa og þeir beðnir að koma með grunnáætlun fyrir markaðsrannsókn, með eitt ákveðið fyrirtæki að leiðarljósi.
    Líflegar umræður sköpuðust á staðnum og það voru ánægðir þátttakendur sem yfirgáfu vinnustofuna að fjórum tímum loknum, reynslunni ríkari með vegleg námskeiðsgögn í farteskinu.

Deila