Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. maí 2016

Matur er mikils virði - nýir straumar og markaðssetning matvæla

Matur er mikils virði - nýir straumar og markaðssetning matvæla
Þann 19. maí sl. efndi samstarfsvettvangurinn Matvælalandið Íslands til ráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla. Ráðstefnan var vel sótt en þar kom fram að sagan, sérstaðan og ósvikin matarupplifun eru þau lykilatriði sem matvælaframleiðendur ættu að hafa í huga við framleiðslu og markaðssetningu í framtíðinni.

Þann 19. maí efndi samstarfsvettvangurinn Matvælalandið Íslands til ráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla. Ráðstefnan var vel sótt en aðalumræðuefni hennar var matvæli og markaðssetning í framtíðinni með tilliti til aukinnar verðmætasköpunar. Þar kom fram að sagan, sérstaðan og ósvikin matarupplifun eru þau lykilatriði sem matvælaframleiðendur ættu að hafa í huga við framleiðslu og markaðssetningu í framtíðinni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar.

Aðalfyrirlesarinn, Birthe Linddal frá Danmörku, hélt erindi um strauma og stefnur í matargeiranum og tækifærin sem í þeim felast. Hún minnti fundargesti á að þeir gætu haft áhrif á framtíðina þar sem hún væri ekki fullmótað fyrirbæri. Með það í huga ættu matvælaframleiðendur að rýna í nútíð og framtíð, meta með opnum huga mögulegar breytingar á hegðun fólks og neyslu þeirra í framtíðinni og þau tækifæri sem í því felast. Með því að vera vakandi fyrir þessum breytingum eiga matvælaframleiðendur auðveldara með að laga sig að nýjum tímum og skapa sér þannig ákveðið forskot. Hún nefndi mikilvægi hönnunar og þess að segja söguna á bak við vöruna þegar kemur að markaðssetningu matvæla og þannig mætti auka verðmæti þeirra og tryggð neytandans við vöruna. Þrátt fyrir þá áherslu á að skyggnast inn í framtíðina sagði Birthe áríðandi að missa ekki sjónar af fortíðinni og hefðum, heldur taka það besta með inn í framtíðina. Birthe sagði mikil tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur felast á markaði lífrænna matvæla. Á svipuðum nótum hvatti Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra íslensk matvælafyrirtæki til að nýta sér tækifærin til að auka framleiðslu heilnæmra matvæla.

Guðný Káradóttir, forstöðumaður matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu, hélt erindi um markaðssetningu íslenskra matvælafyrirtækja. Hún sagði frá því hvernig kortlagning matvælageirans frá síðasta ári hefur nýst í ýmsum verkefnum Íslandsstofu og nefndi að reynsla fólks úr ólíkum áttum væri auðlind og að mikilvægt væri að rækta hugmyndir um verðmætasköpun. 

Erindi Guðmundar H. Gunnarssonar, nýsköpunarstjóra hjá Skinney Þinganesi, bar yfirskriftina Leyndamál íslenska þorsksins. Hann sagði frá markaðsverkefni saltaðra þorskafurða í Suður-Evrópu sem er samvinnuverkefni Samtaka íslenskra saltfiskframleiðenda og Íslandsstofu.  Þá fjallaði hann um samspil hefða og nýsköpunar og var sögusviðið Höfn í Hornafirði. Í markaðsverkefninu í Suður-Evrópu er lögð áhersla á að segja frá þeim hefðum, þekkingu og reynslu sem býr í íslenskum sjávarþorpum og skapa þannig aukin verðmæti fyrir vöruna.

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, sagði frá markaðsstarfi samtakanna sem miðar að verðmætaaukningu sauðfjárafurða. Svavar nefndi tækifærin sem felast í því að segja neytandanum frá sérstöðu íslenska sauðfjárkynsins og söguna á bak við íslenska lambakjötið, sem m.a. er gert með nýju merki íslenskra sauðfjárafurða sem kynnt var til sögunnar í desember sl.

Fimm ólík fyrirtæki sögðu frá reynslu sinni og hvernig fjölbreyttar hugmyndir þeirra urðu að veruleika. Þau voru veitingastaðurinn Matur og drykkur, Bjórskóli Ölgerðarinnar, Blámar, Eldum rétt og Vakandi. Mikil framsýni og nýbreytni einkennir þessar sögur en viðskiptahugmyndirnar byggja á þróun (trends) sem líklegar eru til að eflast enn til framtíðar, s.s. meðvitund neytenda um minni sóun, meiri gæði og að byggja á hefðum. Ráðstefnustjóri var Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís sem miðlaði inn á milli erindi af fróðleik sem tengist starfi hans.

Allar myndbandsupptökur af ráðstefnunni eru aðgengilegar hér á vefnum.

Að samstarfsvettvanginum Matvælalandið Ísland koma Íslandsstofa, Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Matís, Háskóli Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Deila