Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
1. nóvember 2012

Mikill áhugi á þróun ferðaleiða

Mikill áhugi á þróun ferðaleiða
Yfir 100 manns sóttu fund Íslandsstofu um þróun ferðaleiða sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica á þriðjudag. Fundurinn heppnaðist einstaklega vel enda um afar áhugavert umfjöllunarefni að ræða sem á greinilega erindi við marga.

Yfir 100 manns sóttu fund Íslandsstofu um þróun ferðaleiða sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica á þriðjudag. Fundurinn heppnaðist einstaklega vel enda um afar áhugavert umfjöllunarefni að ræða sem á greinilega erindi við marga.

Á fundinum kynnti Trine Kanter Zerwekh, kynningarstjóri hjá norsku vegagerðinni, National Tourist Routes, samstarfsverkefni vegagerðarinnar og ferðaþjónustunnar þar í landi sem miðar að því að byggja upp vinsælar leiðir fyrir ferðamenn. Þetta eru 18 ferðaleiðir sem valdar voru sérstaklega og hannaðar með hliðsjón af þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn og þeim náttúruperlum sem sjá má á leiðinni. Nú eru sex af leiðunum tilbúnar en gert er ráð fyrir að búið verði að fullhanna allar 18 leiðirnar fyrir árið 2020.

Að sögn Trine, er National Tourist Routes frumkvöðlaverkefni sem á sér enga hliðstæðu annars staðar í heiminum þar sem náttúru, arkitektúr og list er blandað saman á þennan hátt. Leiðirnar hafa hlotið verðskuldaða athygli og hlotið viðurkenningu í Noregi og víðar. Geiranger – Trollstien leiðin er m.a. á heimsminjaskrá Unesco yfir einsstaka ákvörðunarstaði, en leiðina fara um 700.000 ferðamenn þá sjö mánuði ársins sem hún er opin.
Heildarkostnaður verkefnisins nemur um 2,2 milljörðum norskra króna en þar af greiðir norska vegagerðin tvo þriðju. Þriðjung greiða svo sveitafélög, ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar en að sögn Trine hefur það verið aðaláskorun verkefnisins í gegnum tíðina að fá fjárframlög frá slíkum aðilum. Þetta er þó að breytast, nú þegar ávinningur verkefnisins er að koma í ljós en kannanir sýna að ferðamannatekjur hafa aukist verulega milli áranna 2011 og 2012 á þeim stöðum sem ferðaleiðirnar liggja um.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri kynnti fjórar skýrslur sem vegagerðin hefur látið vinna á síðustu þremur árum og innihalda hugmyndir að ferðamannaleiðum og afmörkun þeirra. Þar voru nefnd sem dæmi Vaðlaheiðavegur, Kaldidalur og Snæfellsnes. Í skýrslunum, sem unnar voru í samstarfi við ýmsa aðila, s.s. Ferðamálastofu og VSÓ ráðgjöf, komu m.a. fram hugmyndir um að kanna erlendar fyrirmyndir og meta ávinninginn af slíkum ferðaleiðum, sem og vangaveltur um hvernig velja ætti leiðirnar og fjármagna þær. Sagði Hreinn m.a. að ef þróa eigi sérstakar ferðamannaleiðir á Íslandi væru næstu skref að framkvæma þolmarkagreiningu og stofna samráðshópa eða vinnuteymi.

Hlynur Snæland Lárusson, hjá Snælandi Grímssyni hefur mikla reynslu af akstri um landið og var fenginn til að deila reynslu sinni í þessum efnum. Hann ræddi m.a. slæman aðbúnað á vegum víðsvegar um landið, sér í lagi á hálendinu og sagði óviðunandi að ekki væri hægt að keyra ýmsar leiðir án þess að eiga það á hættu að skemma bifreiðar sökum slæms ástands veganna.

Þórarinn Malmquist, arkitekt hjá Batteríinu, sagðist frekar vilja ræða fjármögnun verkefna en arkitektúr. Hann nefndi að meginforsenda verkefnis í anda National Tourist Routes hér á Íslandi, væri vilji ríkis og sveitafélaga til að leggja sitt af mörkum. Sagði hann að til þess að ná árangri yrði að forgangsraða verkefnum í ferðaþjónustu og reiða fram hærri fjárhæðir til afmarkaðra verkefna í stað þess að veita fjölmarga styrki til smærri verkefna. 

Deila