Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. nóvember 2017

Mikill fjöldi viðstaddur opnun íslenska þorpsins á jólamarkaðinum í Strassborg

Mikill fjöldi viðstaddur opnun íslenska þorpsins á jólamarkaðinum í Strassborg
Mikill áhugi er á Íslandi í Strassborg þessi dagana þar sem Ísland er heiðursgestur á einum elsta og stærsta jólamarkaði í heimi. Formleg opnunarhátíð íslenska þorpsins á jólamarkaðinum fór fram síðastliðið laugardagskvöld.

Mikill áhugi er á Íslandi í Strassborg þessi dagana þar sem Ísland er heiðursgestur á einum elsta og stærsta jólamarkaði í heimi. Formleg opnunarhátíð íslenska þorpsins á jólamarkaðinum fór fram síðastliðið laugardagskvöld, en þetta er í 447 skipti sem markaðurinn er settur. Búist er við að rúmlega tvær milljónir heimsæki markaðinn í desember. 

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi opnaði íslenska þorpið við hátíðlega athöfn. „Íslendingar leggja mikið upp úr góðum mat um jólin líkt og Frakkar, og það er gaman að fá tækifæri til að kynna borgarbúum helstu nauðsynjavöru Íslendinga um hátíðina, eins og hangikjöt, laufabrauð, malt og appelsín o.fl. góðgæti,” sagði Kristján, en ellefu íslensk fyrirtæki taka þátt í markaðnum og selja þar íslenskar vörur.

Roland Ries borgarstjóri Strassborgar sagði að Ísland væri ríkt af jólahefðum sem Frakkar hlökkuðu til að kynnast nánar. „Við þökkum Íslandi fyrir að taka þátt í jólamarkaðnum og vonumst til að efla enn frekar samstarfið á milli ykkar fallega lands og Strassborgar," sagði hann ennfremur.

Í framhaldinu tóku við opnunartónleikar í dómkirkjunni þar sem tónlistarfólkið Svavar Knútur og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir fluttu íslensk lög og jólalög í bland. Samflutningur þeirra m.a. á jólalaginu Nóttin var sú ágæt ein vakti mikla lukku. Um 700 manns sóttu tónleikana sem voru á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.  

Matreiðslumeistarinn Viktor Örn Andrésson eldaði síðan dýrindis rétti úr íslensku hráefni í Eldhúsinu á sunnudeginum fyrir vinningshafa í útvarpsleik sem verið hefur í gangi í aðdraganda opnunar. Viktor mun einnig elda fyrir fjölmiðla í Eldhúsinu sem oft áður hefur verið notað til landkynningar og vekur ávallt mikla athygli. Svavar Knútur mun síðan í sama húsi halda stutta tónleika fyrir gesti markaðarins. Í boði verður að syngja Erfiðasta karaoke lag í heimi með Steinda Jr. á hverjum laugardegi fram að jólum og hafa þegar margir spreytt sig. Jólaþorpið er kynnt undir merkjum Inspired by Iceland.

Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Frakklandi standa að landkynningu í tengslum við þátttöku Íslands á markaðnum til að kynna íslenskar vörur, mat og menningu. Íslensku fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru Bæjarins Bestu, Hekla Ísland, Handprjónasambandið, Heilsukokkur, Ice-Co, Ice Wear, Iceland Treasures, Lýsi, Reykjavík Distillery, Skinboss og Urð. Þá hefur Samskip annast alla flutninga á vörum til Frakklands í tengslum við verkefnið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun standa fyrir fjölmörgum menningarviðburðum í viðbót þann rúma mánuð sem markaðurinn stendur yfir. Íslenskar bókmenntir og hið séríslenska jólabókaflóð verða næst í forgrunni mánudaginn 27. nóvember í Kléber bókabúðinni þar sem rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir og Oddný Eir munu ræða um viðfangsefnið, umræðum stýrir Bjarni Benedikt Björnsson.

Dagana 13. og 14. desember verða tónleikar með Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Einnig verður kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson sýnd í Cinema Star kvikmyndahúsinu en hún fékk verðlaunin „Un Certain Regard“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015.

Íslandsstofa er framkvæmdaaðili verkefnisins en aðstandendur þess eru utanríkisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Deila