Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. febrúar 2021

Mikilvæg erlend fjárfesting

Mikilvæg erlend fjárfesting
Frá því síðastliðið haust hefur Íslandsstofa unnið með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og atvinnuþróunarfélögum landshlutanna að því að finna leiðir til að bæta þjónustu við þá sem vilja fjárfesta á Íslandi.

Á síðustu tíu árum hefur erlend fjárfesting auðgað atvinnulífið á Íslandi og aukið fjölbreytni þess. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni þar sem rætt var við Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóra Íslandstofu. Hann segir þetta mjög áhugaverða þróun, en hér er einkum um að ræða fjárfestingu í líf- og heilsutækni, í upplýsingatækni, í fiskeldi, fjölnýtingu jarðvarma og þjónustu.

„Segja má að þetta sé nokkur breyting frá því sem áður var ef horft er aftur til ársins 1970 þegar stór orkuháð verkefni komu til landsins á kannski tíu ára fresti,“ segir Pétur. „Þau voru gríðarlega mikilvæg og skiptu máli fyrir þjóðarhag hvert og eitt. Verkefnin núna eru mörg minni og dreifðari en skipta miklu máli.“

Aukin fjölbreytni erlendra fjárfestinga sést vel á meðfylgjandi mynd sem er þó ekki tæmandi.

Hægt að gera betur
„Staðreyndin er sú að á undanförnum árum þá höfum við séð að ákveðinn einfaldleiki, sem fjárfestum hugnast mjög vel, hefur ekki verið nægjanlegur á Íslandi. Sérstaklega ef við berum okkur saman við þau lönd sem við erum að keppa við.“

Frá því síðastliðið haust hefur Íslandsstofa unnið með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og atvinnuþróunarfélögum landshlutanna að því að finna leiðir til að bæta þjónustu við þá sem vilja fjárfesta á Íslandi.

„Löndin í kringum okkur hafa til dæmis boðið upp á pakkalausnir. Við getum líkt þessu við það að ef þú værir að opna búð, og fengir annars vegar að velja um að fá rými í Kringlunni eða fá lóð og segja: Hér getur þú byggt, þú átt að vísu eftir að fá öll leyfi og svo framvegis.“

Með því að kortleggja tækfærin, forvinna svæði fyrir þau og fara markvisst í kynningarstarfið væri hægt að auðvelda komu fyrirtækja til landsins og flýta fyrir, að mati Péturs. „Þú ert til dæmis með gagnaver, þá er tilbúin lóð, það er komið rafmagn inn á svæðið og það er búið að skipuleggja þetta. Við höfum verið í samtali við stjórnvöld um þetta og það er bæði mikill áhugi og jákvæðni fyrir því að fara þessa leið.“

Ef árangur á að nást þurfa margir aðilar að vinna saman, segir Pétur. „Ef Ísland væri fyrirtæki þá væri Íslandsstofa í einhverjum skilningi sölu- og markaðsdeildin. En þá þarf maður að hafa vöru sem er einföld og gott að selja.“

Markvisst hefur verið unnið að því að laða erlenda fjárfestingu til Íslands á undanförnum árum, m.a. á vettvangi Íslandsstofu. Pétur segir að undanfarið hafi verið horft til ákveðinna greina, s.s. gagnavera og fjölnýtingar jarðvarma. Vænlegast til árangurs sé að afmarka sig og setja svo kraft í að nýta þau tækifæri sem gefast. „Við höfum stjórnsýsluna með okkur þannig að ef við værum að sækjast eftir stórum verkefnum þá gætum við boðið viðkomandi aðila allar upplýsingar á einum stað.“

Tækifærin eru sannarlega til staðar og margt að gerast. Pétur nefnir sérstaklega umfangsmikla fjárfestingu Alvotech og þróun líftæknilyfja sem er fram undan á Íslandi. „Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í Vatnsmýrinni,“ segir hann en gangi áætlanir fyrirtækisins eftir munu útflutningstekjur Alvotech nema um 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar innan fárra ára eða um 200 milljörðum króna.

Hægt er að hluta á viðtalið í heild á vef Vísis en þar var einnig rætt um erlenda sérfræðinga á Íslandi, ferðaþjónustuna, markaðsaðgerðir sem ráðist hefur verið í til að minna á Ísland og væntanlega sókn þegar almenn ferðalög hefjast milli landa á ný.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið í Bítinu 11. febrúar 2021

Deila