Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
20. ágúst 2011

Mikilvægt samstarf á heimsmeistaramóti Íslenska hestsins 2011

Fimm íslensk fyrirtæki kynntu vörur sínar og þjónustu í sameiginlegu sýningartjaldi á Heimsmeistaramóti hestsins í St. Radegund í Austurríki í ágústbyrjun.
Hagsmunaaðilar í hrossarækt og hestamennsku stóðu fyrir kynningu undir merkjum Íslenska hestatorgsins. Þá buðu Hestheimar og Kálfholt hestaferðir upp á hestatengda ferðamennsku, Matís kynnti DNA-greiningar á hestum og Landsmót hestamanna kynnti Landsmót 2012 í Reykjavík.

"Heimsleikar íslenska hestsins, sem og aðrar alþjóðlegar hestasýningar, eru mikilvægur markaðsgluggi fyrir þá sem vinna með íslenska hestinn, bæði í hrossarækt og ferðaþjónustu," segir Hulda G. Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Félags hrossabænda og verkefnisstjóri Hins íslenska hestatorgs, um þátttökuna á Heimsmeistaramótinu. 
Um samstarfið á sýningunni hafði Hulda þetta að segja: "Við teljum samstarfið og yfirumsjón Íslandsstofu með slíkum sýningum algert lykilatriði, enda flestir þeirra sem að kynningunni koma of smáir til að standa í slíku einir og því betra að koma saman undir merkjum Íslands. Við höfum um árabil átt mjög gott samstarf við Íslandsstofu, áður Útflutningsráð, á heimsleikunum og náð góðum árangri í okkar kynningarstarfi á þeim vettvangi. Við vorum mjög ánægð með framlag Íslandsstofu á HM 2011 og þá athygli sem Ísland og íslensk hrossarækt fengu."

Aðalsteinn H. Sverrisson hjá Íslandsstofu tekur undir mikilvægi samvinnu á mótinu og segir jafnframt: "Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins um allan heim en alls hafa 19 þjóðir keppnisrétt á mótinu. Þetta er því frábært tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna sig og selja vörur sínar."

Deila