Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. febrúar 2016

Ný herferð Ísland - allt árið laðar erlenda ferðamenn til landsins

Ný herferð Ísland - allt árið laðar erlenda ferðamenn til landsins
Í dag fór nýjasti áfangi markaðsverkefnisins Ísland - allt árið af stað með herferðinni „Iceland Academy.
Markaðsverkefnið Ísland – allt árið fer af stað með herferð undir merkjum Inspired by Iceland sem á að auka vitund og áhuga á Íslandi sem áfangastað ásamt því að leggja áherslu á ábyrga ferðahegðun erlendra gesta, auka öryggi þeirra og ánægju.


Í dag fór nýjasti áfangi markaðsverkefnisins Ísland - allt árið af stað með herferðinni „Iceland Academy“ en hún var kynnt innanlands í síðustu viku á fjölmennum fundi Íslandsstofu um markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu í breyttu umhverfi.  

Eins og áður er herferðin undir merkjum Inspired by Iceland og er henni þetta skiptið ætlað að auka vitund og áhuga á Íslandi sem áfangastað ásamt því að leggja áherslu á ábyrga ferðahegðun erlendra gesta, auka öryggi þeirra og ánægju og stuðla að því að þeir fái sem mest út úr Íslandsferðinni.

Átta íslenskir leiðbeinendur í kynningamyndbandinu

Í myndbandinu sem nú fer í loftið verða átta leiðbeinendur kynntir til sögunnar; leiðsögumaðurinn Kristín Bang sem mun stýra fræðslu um ábyrga ferðamennsku og leiða leiðbeinendahópinn, Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg sem leiðbeinir um öryggismál, Ylfa Helgadóttir meðlimur íslenska kokkalandsliðsins sem fræðir um íslenska matargerð, Guðmundur Karl Jónsson umsjónarmaður skíðasvæðisins á Akureyri kynnir íslenska vetrarafþreyingu, Kamilla Ingibergsdóttir fyrrum kynningarstjóri Iceland Airwaves og núverandi starfsmaður Of Monsters and Men segir frá íslenskum hátíðum, Baldur Kristjánsson ljósmyndari sýnir erlendum gestum hvernig best er að fanga norðurljósin á mynd, Guðrún Bjarnadóttir fræðir ferðamenn um íslenskar heilsulindir og loks mun Sigríður Margrét Guðmundsdóttir eigandi Landnámsseturs fræða ferðamenn um íslenska sögu.

Vefur Inspired By Iceland mun hýsa námskeiðin og hægt verður að fylgjast með þeim í gegnum Facebook, Twitter og Instagram. Fyrstu fjögur námskeiðin eru:

  • How to Avoid Hot Tub Awkardness
  • Responsible Travelling In Iceland
  • Staying Safe In Iceland
  • A Guide to Winter Sports in Iceland


Hægt er að skrá sig í „Iceland Academy“ með því að heimsækja www.inspiredbyiceland.com og hér að neðan má sjá nýjasta kynningarmyndbandið.

Deila