Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
1. febrúar 2012

Nýjungar í markaðsstarfi Íslands á MATKA

23 fyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi tóku þátt í MATKA ferðasýningunni í Helsinki á dögunum.

Samhliða sýningunni gekkst Icelandair í Helsinki fyrir umtalsverðum markaðsaðgerðum sem fólust meðal annars í að send voru sms skilaboð til 150.000 áskrifenda símafyrirtækisins Elisa og þeim boðið að skrá sig á sérstakan póstlista. Þeir sem það gerðu áttu möguleika á verðlaunum, þar á meðal Íslandsferð. Þá var fjölda fyrirtækja boðið í heimsókn á sýninguna. Að þessu sinni var bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða til kynningarfunda utan hefðbundins opnunartíma sýningarinnar og voru þær haldnar í Elisa sýningarrýminu í miðborg Helsinki. Þar áttu um 80 gestir fundi með söluaðilum Íslandsferða og fengu að auki að smakka íslensk matvæli sem matreiðslumeistararnir Sigurður Hall og Sigurður Harðarson matreiddu og kynntu.

Samhliða þátttöku hefðbundinna ferðaþjónustufyrirtækja á sýningunni voru umboðsmenn MS Skyrs í Finnlandi með kynningu og gáfu gestum að bragða. Skyrið fékk góðar viðtökur og á laugardeginum smökkuðu 5.550 gestir vöruna en það svarar til um 20% gestafjölda dagsins. Þá var einnig lögð áhersla á að kynna íslenska hönnun. Kynningarefni um Hönnunarmars var dreift og ‚Fussy‘, gærukollur Sigurðar Más Helgasonar, var þar bæði sem sýnishorn af íslenskri hönnun og í sínum upprunalega tilgangi sem sæti. Vakti stóllinn verðskuldaða athygli sem og glæsileg ljósmynd Brynjars Ágústssonar úr Landmannalaugum sem prýddi sýningarbásinn.

Deila