Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. september 2016

Nýr vefur Horses of Iceland, uppgangur á samfélagsmiðlum o.fl.

Nýr vefur Horses of Iceland, uppgangur á samfélagsmiðlum o.fl.
Vefurinn veitir grunnupplýsingar um íslenska hestinn og samfélag hans um heim allan. Hann á að vera gátt inn í Íslandshestaheiminn, fræða um eiginleika íslenska hestsins, reiðmennsku og samfélag hestamanna.

Í tengslum við markaðsverkefnið Horses of Iceland hefur verið opnaður nýr vefur, www.horsesoficeland.is. Vefurinn veitir grunnupplýsingar um íslenska hestinn og  samfélag hans um heim allan. Hann á að vera gátt inn í Íslandshestaheiminn, fræða um eiginleika íslenska hestsins, reiðmennsku og samfélag hestamanna.

Íslenski hesturinn stór á samfélagsmiðlum

Uppbygging samfélagsmiðla undir merkjum Horses of Iceland hófst með markvissum hætti í tengslum við Landsmót hestamanna á Hólum í sumar. Fylgjendum hefur fjölgað hratt en í dag eru 9423 manns að fylgjast með á FacebookInstagramTwitter og Youtube og eru þeir mjög virkir í að miðla efni og deila upplifun sinni af hestinum og eru að nota myllumerkið #horsesoficeland.

Ýmis myllumerki sem tengjast íslenska hestinum eru notuð til að breiða út boðskapinn um íslenska hestinn á samfélagsmiðlum. Samanlagt eru þau útbreiddari en önnur þekkt íslensk fyrirbæri sem tengjast náttúru og menningu, Gullfoss og Geysir þar með talin. Þannig má segja að hesturinn sé eitt helsta aðdráttarafl Íslands þegar kemur að miðlun upplifunar af landinu. 

Í Horses of Iceland er mest áhersla lögð á Facebook og Instagram og þar hefur náðst mjög góður árangur á stuttum tíma og fjölgar stöðugt - sjá nánar hér á Facebook, Instagram og Twitter.

Laufskálarétt 24. september

Stóðréttir voru haldnar á haustmánuðum. Horses of Iceland fór í Laufskálarétt laugardaginn 24. sept. með erlenda blaðamenn sem komu til að kynna sér samfélag íslenska hestsins, heimsækja ræktunarbú á Norðurlandi og bregða sér á hestbak. Mikið fjölmenni fólks var í réttunum sem sækir í góða stemmingu í kringum hestamennskuna. Margir fóru í rekstur inn í Kolbeinsdal og var gaman að sjá hestana renna inn í réttina. Gert var video þar sem sést hversu magnað það er að sjá þetta úr lofti.

Um Horses of Iceland markaðsverkefnið

Tilgangur Horses of Iceland verkefnisins er að stuðla að því að styrkja ímynd íslenska hestins á heimsvísu með samhæfðum skilaboðum í markaðsaðgerðum og kynningarstarfi. Um er að ræða markaðssamstarf sem nýtist heildarhagsmunum í að byggja upp orðspor íslenska hestsins og leggja grunn að því að auka gjaldeyristekjur með sölu á hestum og vörum og þjónustu honum tengdum.

Áherslan í skilaboðunum er á hestinn sjálfan og eiginleika hans, frelsi og nálægð við náttúruna, tengsl hestsins við sögu og menningu og samfélag íslenska hestsins. „Horses of Iceland – bring you closer to nature“ er slagorðið sem notað er til að fanga aðdráttarafl hestsins.

Nánari upplýsingar um Horses of Iceland verkefnið veitir Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu, jelena@islandsstofa.is, sími 511 4000 og gsm 895 9170. 

 

Deila