Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. apríl 2019

Orðstír þýðingarverðlaun afhent í þriðja sinn

Orðstír þýðingarverðlaun afhent í þriðja sinn
Heiðursverðlauninin Orðstír voru veitt í þriðja sinn á Bessastöðum þann 26. apríl. Verðlaunahafar voru þau Silvia Cosimini frá Ítalíu og John Swedenmark frá Svíþjóð. Þau fá viðurkenningarskjal og verðlaunafé að launum.

Orðstír, heiðursverðlaun fyrir þýðingar íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Silvia og John eru bæði mikilvirkir þýðendur með brennandi áhuga á íslenskum bókmenntum og tungu. Silvia hefur þýtt samtals um 70 verk úr íslensku á ítölsku og er jafnvíg á ólíkar bókmenntategundir. Meðal íslenskra höfunda sem hún hefur þýtt verk eftir má nefna Halldór Laxness, Hallgrím Pétursson, Guðberg Bergsson, Sjón, Svövu Jakobsdóttur og Arnald Indriðason. John hefur þýtt tæplega 50 verk úr íslensku á sænsku, meðal annars eftir rithöfundana Gerði Kristnýju, Jón Kalman, Þórarin Eldjárn, Lindu Vilhjálmsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur og Gyrði Elíasson. Samanlagt hafa farið frá þeim einar 120 vandaðar þýðingar. 

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Íslandsstofa, Bandalag þýðenda og túlka, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. 

Ljósmynd: Alexander Schwarz 


Deila