Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. október 2018

Pétur Óskarsson nýr framkvæmdastjóri Íslandsstofu

Pétur Óskarsson nýr framkvæmdastjóri Íslandsstofu

Pétur Þ. Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Ísland.

Hlutverk Íslandsstofu er að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til að greiða fyrir útflutningi vöru og þjónustu, laða til landsins erlenda ferðamenn og fjárfestingu með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál.

Íslandsstofa styður við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis og vinnur tillögur að langtímastefnumótun atvinnulífs, hagsmunasamtaka og stjórnvalda og hrindir þeirri stefnumótun í framkvæmd

Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Íslandsstofu:

„Íslandsstofa stendur á tímamótum en ný lög um starfsemi hennar tóku gildi í september þar sem Íslandsstofu var breytt í sjálfseignarstofnun. Framundan eru umfangsmikil og krefjandi verkefni, ekki síst langtímastefnumótun um markaðssetningu og útflutning á íslenskum vörum, þjónustu og menningu. Stjórn Íslandsstofu stóð frammi fyrir erfiðu vali þar sem hópur einstaklega hæfra einstaklinga gaf kost á sér til að leiða þetta verkefni. Við fögnum því að hafa fengið Pétur Þ. Óskarsson í forystu Íslandsstofu. Yfirgripsmikil reynsla hans og fyrri störf úr utanríkisþjónustunni og atvinnulífinu, jafnt hér á landi sem erlendis, munu nýtast vel við verkefnin framundan.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fráfarandi framkvæmdastjóra, Jóni Ásbergssyni, fyrir hans framúrskarandi starf í þágu íslensks atvinnulífs um árabil.“

Pétur hefur frá árinu 2015 verið framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group. Áður bar hann m.a. ábyrgð á samskiptamálum Símans, Framtakssjóðs Íslands, Skipta og Íslandsbanka. Hann var viðskipta­full­trúi Íslands í Banda­ríkj­un­um og Kan­ada á ár­un­um 2000-2005 þar sem hann var meðal ann­ars ann­ar fram­kvæmda­stjóra Ice­land Naturally verk­efn­is­ins, sam­starfs­verk­efni ís­lenskra stjórn­valda og fyr­ir­tækja um kynn­ingu á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu. Á undanförnum árum hefur hann setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og samtaka, m.a. Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins.

Pétur er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá Fordham-háskóla í New York.

Alls bárust 44 umsóknir um starf framkvæmdastjóra Íslandsstofu og var ráðningarferlið í höndum Capacent.

 

Deila