Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. ágúst 2014

Saltfiskafurðir kynntar á Suður Ítalíu

Saltfiskafurðir kynntar á Suður Ítalíu
Í lok september verða íslenskar saltfiskafurðir kynntar á Suður Ítalíu á fjölmennri matarhátíð í Somma Vesuviana og í miðborg Napolí.

Í lok september verða íslenskar saltfiskafurðir kynntar á Suður Ítalíu á fjölmennri matarhátíð í Somma Vesuviana og í miðborg Napolí. Ítalía er þriðji mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar saltfiskafurðir á eftir Spáni og Portúgal og er Napólísvæðið, þar sem kynningin fer fram, langsterkasta vígi íslenska saltfisksins á Ítalíu.

Kynningin er liður í markaðssamstarfi fyrirtækja í saltfiskvinnslu og útflutningi, samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda og Íslandsstofu í Suður Evrópu og er hún unnin í samstarfi við ítalska kaupendur og innflytjendur á svæðinu.

Meginskilaboðin eru gæði og ferskleiki íslenskra saltfiskaurða undir kjörorðinu „Taste and share the secret of Icelandic Bacalao“. Almenningi gefst tækifæri að heimsækja litla Eldhúsið og smakka íslenskan gæðasaltfisk. Kynningin mun ekki eingöngu beinast að almenningi því áhersla verður lögð á að efla tengsl við lykilaðila á svæðinu. Í kvöldverðarboði þann 26. september munu koma saman fulltrúar yfirvalda, innflytjendur, veitingahúsaeigendur, blaðamenn, fulltrúar íslensku fyrirtækjanna auk sendiherra Íslands í París, Berglindar Ásgeirsdóttur en á Ítalía heyrir undir hennar sendiráð. Samhliða kynningu í miðborg Napólí þann 29. september í litla Eldhúsinu verður kvöldverðarboð í Napólí þar sem fjölmargir réttir úr íslenskum saltfiski verða framreiddir.

Fyrr á árinu kom til Íslands einn meðlimur í ítalska kokkalandsliðinu, Lorenzo Alessio, og var gert myndband um heimsókn hans þar sem hann kynnti sér veiðar og vinnslu á gæðaafurðum á Íslandi. Hann var stórhrifinn og má sjá myndbandið hér á vefnum og einnig að neðan. 

Auk viðburða verður markvisst unnið að því að auka umfjöllun um íslenskan saltfisk í fjölmiðlum, á vef- og samfélagsmiðlum m.a. með ljósmyndasamkeppni á Facebook, spurningaleik þar sem í boði eru vegleg verðlaun, m.a. íslenskur saltfiskur.

 

Deila