Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. apríl 2013

Samningur um saltfiskverkefni undirritaður

Samningur um saltfiskverkefni undirritaður
Íslandsstofa sér um framkvæmd markaðsverkefnis í Suður Evrópu þar sem íslenskur saltfiskur verður kynntur með það að markmiði að treysta stöðuna á markaðinum og auka áhuga á saltfiskafurðum frá Íslandi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Í dag var skrifað undir samning um markaðsverkefni í Suður Evrópu á íslenskum saltfiski til eins árs. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins sem leggur til 20 milljónir króna í þetta sameiginlega markaðsverkefni, en framlagið miðast við jafnhátt eða hærra framlag frá öðrum þátttakendum. Fyrirtæki í framleiðslu og útflutningi á söltuðum afurðum til Spánar, Ítalíu og Portúgal eru þátttakendur í verkefninu, sem og þjónustufyrirtæki, og leggja þau fram mótframlag ásamt Íslandsstofu en samtals er fjárhagsáætlun verkefnisins til eins árs 50 milljónir kr. Það var formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda, Skjöldur Pálmason, sem undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækjanna og Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu, en þessir aðilar áttu frumkvæði að verkefninu.  

Íslenskar saltfiskafurðir eru meðal mikilvægustu útflutningsafurða til Suður Evrópu, en markaðir hafa verið að dragast saman að undanförnu vegna erfiðs efnahagsástands og harðnandi samkeppni.  Á fundinum þar sem skrifað var undir samninginn kom fram að þetta verkefni er mikilvægur liður í að móta sameiginlegar markaðsaðgerðir með virkri þátttöku hagsmunaaðila og vonandi vísir að stærra verkefni í sameiginlegu markaðsstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Gunnar Tómasson formaður verkefnisstjórnar sagði markmið verkefnisins vera að efla samkeppnisstöðu íslenskra saltfiskafurða og auka verðmætasköpun á mörkuðum. Lögð verður áhersla á að treysta orðspor og ímynd íslenskra saltfiskafurða sem úrvals afurða með því að vekja athygli á íslenskum uppruna og sérstöðu sem tengist gæðum og hreinleika. Unnið verður með lykilhagsmunaaðilum á mörkuðum erlendis í að skapa áhuga kaupenda á íslenskum fiski og festa í sessi nýja neytendur.

Nítján fyrirtæki hafa nú þegar gengið til liðs við verkefnið. Þau mynda ráðgjafaráð fyrir hvert markaðsland sem mótar áherslur í markaðsstarfinu, en verkefnið byggir á þeirri meginstefnu sem mörkuð hefur verið í kynningarstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir hjá Íslandsstofu í gegnum Iceland Responsible Fisheries verkefnið sem og í Inspired by Iceland verkefninu (Ísland allt árið). Áhersla er lögð á að kynna gæði og ferskleika afurða sem eiga uppruna í hreinu hafsvæði þar sem stundaðar eru ábyrgar fiskveiðar.
Við undirritun samningsins, sem fór fram í Fiskkaupum, Fiskislóð 34 í Reykjavík, buðu íslenskir matreiðslumenn upp á saltfisk, matreiddan á Suður Evrópska vísu. Neysla á íslenskum fiski á sér langa sögu í markaðslöndunum í Suður Evrópu og hann er eftirsóttur vegna gæða sem eru afrakstur góðrar meðhöndlunar og vöruþróunar. Matreiðslumenn í markaðslöndunum eru einmitt einn af þeim markhópum sem höfðað verður til í verkefninu.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu í síma 693 3233 og 511 4000, gudny@islandsstofa.is.
 

Deila