Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. september 2019

Smáþörungaverksmiðja opnar á Hellisheiði

Smáþörungaverksmiðja opnar á Hellisheiði
Fyrirtækið Algaennovation Iceland opnaði smáþörungaverksmiðju sína í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði 24. september sl.

Fyrirtækið hóf tilraunaframleiðslu við Hellisheiðarvirkjun árið 2017 og undirritaði fyrir rúmu ári samstarfssamning við ON um aðstöðu og ýmis orkutengd aðföng til framleiðslunnar. Nú eru teknar í notkun fyrstu tvær framleiðslueiningarnar en forsvarsmenn fyrirtækisins stefna að því að margfalda framleiðslugetuna á næstu árum. Fjöldi manns var viðstaddur opnunina þar sem fjármálaráðherra auk forsvarsmanna fyrirtækisins, ON, bæjarstjórnar Ölfuss og Íslandsstofu tóku til máls.

Í tilkynningu Algaennovation segir að verkefnið sé hið fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu  þar sem hátækni í sívöktun, gagnavinnslu og sjálfvirkri aðlögun kerfa er beitt til að ná hámarks árangri í ræktun smáþörunga, óháð tegund þörungs. Fyrirtækið skilgreinir sig sem hátæknifyrirtæki sem býður lausn við að breyta orku í fæðu (Energy to Food - E2F) með skilvirkari hætti en áður hefur þekkst auk þess sem starfsemin er kolefnisneikvæð, þ.e. umbreytir meiri koltvísýringi í súrefni en fylgir starfseminni. Þá er tæknin hér á landi sem klæðskerasniðin í kringum jarðvarmaver á Íslandi og að íslenskum aðstæðum.

Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu kvaðst í ávarpi sínu vera stoltur af frumkvæði Íslandsstofu við að skilgreina smáþörungaræktun sem sóknarfæri í fjölnýtingu jarðvarma hér á landi og efna til samstarfs við orkufyrirtækin og Kadeco um að laða hingað verkefni á því sviði.

Nokkur fjöldi fyrirtækja ræktar smáþörunga á Íslandi og hefur þessi ört vaxandi grein flutt inn bæði erlent fjármagn og þekkingu sem nýtt er við séríslenskar aðstæður.


Deila