Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. október 2020

Sterk og jákvæð ímynd íslenska hestsins

Sterk og jákvæð ímynd íslenska hestsins
Samhæft markaðsstarf sem Horses of Iceland (HOI) hefur staðið fyrir á síðustu fjórum árum, hefur gefið góða raun.

Samhæft markaðsstarf sem Horses of Iceland (HOI) hefur staðið fyrir á síðustu fjórum árum, hefur gefið góða raun. Meðal erlendra hesteigenda er vitund um íslenska hestinn sterk og ímyndin jákvæð. Þó eru lönd þar sem hægt er að sækja fram og gera betur. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem meistaraverkefni í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands byggir á. 

Jelena Ohm, verkefnastjóri HOI, segir: „Eitt af viðfangsefnum okkar er að mæla árangurinn af starfinu og fylgjast með þróuninni á hverju markaðssvæði fyrir sig. Þeir sem tóku þátt í könnuninni vissu ekki að hún tengdist íslenska hestinum þegar þeir smelltu á hana og gefur hún því skýra mynd af vitund og ímynd hans meðal erlendra hestaeigenda.   

Það er frábært fyrir okkur að fá þessar niðurstöður, ekki vegna þess að það var svo margt sem kom á óvart, heldur vegna þess að við höfum aldrei áður haft tölulegar upplýsingar um árangur markaðsstarfsins. Þær veita okkur einnig upplýsingar um hvar sóknarfærin fyrir íslenska hestinn liggja í framtíðinni. Ljóst er að yngri kynslóðin og nýliðar eru mikilvægir markhópar og munum við einbeita okkur að þeim á komandi misserum.“    

Ríflega 2300 manns tóku þátt í könnuninni frá rúmlega 50 löndum. Könnunin leiddi í ljós að langflestir, eða 97% þátttakenda, þekktu íslenska hestinn. Jákvæð hugrenningatengsl voru sterk og í samræmi við markaðssetningu. Ímyndin er sterkust í Þýskalandi og á Norðurlöndunum, en síst á Bretlandseyjum. Hins vegar voru yngri þátttakendur í Bretlandi jákvæðari og opnari fyrir íslenska hestinum en þeir sem eldri voru, sem gefur til kynna að það séu sóknarfæri á breska markaðinum. 

Sterkustu jákvæðu hugrenningartengslin voru við gangtegundir, geðslag og kraft. Jafnframt voru sterk hugrenningartengsl við hversu harðger íslenski hesturinn er og einnig stærð hans.

Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir vann meistaraverkefnið: „Í sinni einföldustu mynd má segja að vörumerkjavirði samanstandi af vitund og ímynd vörumerkisins. Það lýsir þannig ímyndinni í hugum neytenda og er það falið í sterkum ímyndartengingum sem neytendur hafa gagnvart vörumerkinu,“ útskýrir Hrafnhildur. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að íslenski hesturinn búi yfir nokkuð háu vörumerkjavirði þar sem vitundin er sterk og ímyndin jákvæð.  

Nánari upplýsingar um niðurstöður meistaraverkefnisins má finna á vef Horses of Iceland 


 

Deila