Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. júní 2017

Stjórn Íslandsstofu heimsækir Vestfirði

Stjórn Íslandsstofu heimsækir Vestfirði
Stjórn Íslandsstofu lagði upp í ferðalag á dögunum og heimsótti nokkra staði á Vestfjörðum. Markmiðið var að kynna sér atvinnulíf og staðhætti á Vestfjörðum frá fyrstu hendi.

Stjórn Íslandsstofu lagði upp í ferðalag á dögunum og heimsótti nokkra staði á Vestfjörðum. Markmiðið var að kynna sér atvinnulíf og staðhætti á Vestfjörðum frá fyrstu hendi.

Fyrsti áfangastaðurinn var Bíldudalur þar sem Valgeir Ægir Ingólfsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða tók vel á móti hópnum. Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal var sótt heim og hittu gestirnir að máli framkvæmdastjórann, Einar Svein Ólafsson sem kynnti starfsemi og sögu verksmiðjunnar. Mikil eftirspurn er eftir afurðunum að hans sögn sem eru m.a. notaðar í Herbalife, NOW prótein og önnur fæðubótarefni, sem og við mjólkurframleiðslu og er mestum hluta dreift til Mið-Austurlanda. Að sögn Einars kemur skortur af fólki og húsnæði á staðnum í veg fyrir að framleiðslan geti vaxið eins og best verður á kosið.

Næsti viðkomustaður var Arnarlax laxeldi, þar sem umfangsmesta atvinnustarfsemin á Bíldudal fer fram. Þeir Víkingur Gunnarsson framkvæmdastjóri og Tryggvi Bjarnason framleiðslustjóri fóru með gestina í vettvangsferð um verksmiðjuna og að því búnu kynnti Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax starfsemi fyrirtækisins, sem er stærsta laxeldisbú á Íslandi. Kristian greindi m.a. frá því að aðal rekstrar hindrunin í dag væru erfiðleikar við að fá auknar framleiðsluheimildir.

Á leiðinni til Patreksfjarðar hitti hópurinn fyrir Sigurvin Hreiðarsson stöðvarstjóra hjá Arctic Smolt í botni Tálknafjarðar, sem sagði frá áformum um verulega stækkun á seiðaeldisstöðinni. Um er að ræða stærsta mannvirki sem reist hefur verið á Vestfjörðum, samtals 15 þúsund fermetrar.

Á Patreksfirði var efnt til kynningarfundar þar sem Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu hélt erindi fyrir viðstadda sem bar heitið „Hvað getur Íslandsstofa gert fyrir þig?“ þar sem hann gerði grein fyrir starfsemi Íslandsstofu og þeirri þjónustu sem stofan veitir. Á fundinum sköpuðust líflegar umræður milli heimamanna og gestanna frá Reykjavík.

Þá var förinni heitið í höfuðstaðinn Ísafjörð með viðkomu í Arnarfirði þar sem stöðvað var við mesta foss Vestfjarða; Dynjanda og naut hópurinn þessarar náttúruperlu í sól og blíðskaparveðri.

Daginn eftir lá leiðin á Suðureyri þar sem gestirnir hittu Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóra hjá Fisherman. Elías býður ferðamönnum að upplifa sjávarþorpið Suðureyri þar sem m.a. er hægt að fara í svokallaða ‚gourmet‘ ferð um þorpið. Það nýjasta hjá Elíasi eru matarminjagripir sem hann hóf nýverið sölu á og telur 60 vörunúmer.

Næsta heimsókn var í fiskvinnsluna Íslandssögu á Suðureyri. Þar tóku á móti hópnum þeir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri og Guðni Einarsson, stjórnarformaður sem sýndu gestunum vinnsluna. Hjá Íslandssögu eru framleiddar bæði ferskar og frystar afurðir og mest er flutt út til Bandaríkjanna. Mikið er um samstarf við önnur fyrirtæki á staðnum, s.s. Fisherman, fiskurinn er fullnýttur, og nánast engu hent, að sögn Óðins.

Á Ísafirði tóku þær Díana Jóhannsdóttir frá Markaðsstofu Vestfjarða og Magnea Garðarsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélaginu á móti hópnum og fylgdu þeim í fyrirtækin Kerecic, 3X og Arctic fish, auk ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures.

Dóra Hlín Gísladóttir, gæðastjóri hjá Kerecis fór yfir sögu fyrirtækisins og greindi frá framleiðsluvörum þess, sem eru aðallega unnar úr fiskroði. Fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin ár og að sögn Dóru Hlínar eru í bígerð miklar áætlanir um aukningu í sölu erlendis, m.a. til Bandaríkjanna og víðsvegar um Evrópu.

Hjá Borea Adventures buðu hjónin Nanný Guðmundsdóttir og Rúnar Karlsson upp á kaffi og meðlæti á kaffihúsi sínu og sögðu frá starfsemi fyrirtækisins. Borea Adventures býður upp á ýmsar ævintýraferðir og eru refaferðirnar t.a.m. vinsælar að sögn Rúnars en þar gefst ljósmyndurum færi á að mynda refi í sínu náttúrulega umhverfi.

Í 3X stál tók Karl Ásgeirsson, rekstrarstjóri fyrirtækisins á móti gestunum og leiddi þá um svæðið. Mikið er um framleiðslu á tækninýjungum hjá 3X stál, nú nýlega kælibúnaður fyrir frystitogara sem m.a. er verið er að innleiða í öll ný skip HB Granda.

Lokaheimsókn ferðarinnar var í fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish. Þar tók Shiran Þórisson fjármálastjóri fyrirtækisins á móti hópnum. Shiran greindi m.a. frá stækkunum á seiðaeldisstöðinni í Tálknafirði en þar er verið að reisa fullkomnustu seiðaeldisstöð á Íslandi. 

Það er greinilegt að atvinnulíf á Vestfjörðum er í nokkrum blóma þar sem ýmislegt er í kortunum og mikið uppbyggingastarf unnið í  formi nýsköpunar og starfsþróunar. Valgeir Ægir hjá Atvinnuþróunarfélaginu sagði m.a. frá því að fyrirhuguð er sameining Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga sem munu starfa náið saman undir einum hatti innan skamms. 

Fulltrúar stjórnar Íslandsstofu fengu alls staðar góðar móttökur í ferð sinni, enda eru Vestfirðingar höfðingjar heim að sækja. Vilja þau þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma til að hitta þau og einnig fulltrúum frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða og Fjórðungssambandi Vestfirðinga fyrir gott skipulag og utanumhald. 

Deila