Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. desember 2015

Tækifæri í endurnýjanlegri orku á Íslandi kynnt í París

Tækifæri í endurnýjanlegri orku á Íslandi kynnt í París
Fulltrúar Fjárfestingasviðs Íslandsstofu, ásamt þremur stærstu orkufyrirtækjum Íslands, sóttu á dögunum ráðstefnuna Sustainable Innovation Forum (SIF) í París. Ráðstefnan stóð yfir í tvo daga og var stærsti viðskiptamiðaði viðburðurinn sem haldinn var í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París.

Fulltrúar Fjárfestingasviðs Íslandsstofu, ásamt þremur stærstu orkufyrirtækjum Íslands, sóttu á dögunum ráðstefnuna Sustainable Innovation Forum (SIF) í París. Ráðstefnan stóð yfir í tvo daga og var stærsti viðskiptamiðaði viðburðurinn sem haldinn var í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París.

Markmið Sustainable Innovation Forum er m.a. að skapa samstarfsvettvang fyrir leiðandi aðila úr viðskiptalífinu og fulltrúa stjórnvalda víðsvegar að úr heiminum.

Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson flutti ávarp við upphaf málstofu um endurnýjanlega orku sem fram fór á ráðstefnunni. Í ræðu sinni lýsti forsetinn orkuþróun Íslands frá olíu og kolum til hreinnar orku og hvernig Íslendingar hafa miðlað þekkingu sinni og tækni með því að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum og taka þátt í verkefnum m.a. í Asíu, Afríku og Evrópu. Forsetinn endaði kynningu sína á því að sýna stutt myndband sem skoða má hér. Um 1200 gestir hlýddu á erindi forsetans og var gerður góður rómur að máli hans.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar tók þátt í málstofu sem bar heitið "De-carbonising Global Energy Supply: Renewable Energy and Low Carbon Opportunities" (Kolefnisjöfnun orkubirgða í heiminum: Endurnýjanleg orka og tækifæri í samdrætti kolefnisnotkunar) þar sem m.a. var rætt um hvernig auka mætti vægi endurnýjanlegrar orku.

Orkufyrirtækin Orka náttúrunnar og HS Orka voru einnig þátttakendur í SIF og fræddu fulltrúar þeirra gesti á íslenska básnum um þau einstöku tækifæri sem liggja í endurnýjanlegri orku á Íslandi. 

Deila