Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. janúar 2012

Þátttaka í ferðasýningum erlendis í upphafi árs

Að venju voru fyrstu mánuðir ársins annasamir hjá Íslandsstofu á sviði ferðasýninga.

Dagana 10.-15. janúar var Íslandsstofa með bás á „Vakantiebeurs“ sýningunni í Utrecht í Hollandi, ásamt nokkrum íslenskum og hollenskum fyrirtækjum. Sýninguna sóttu að þessu sinni um 127 þúsund manns, þar af um átta þúsund faggestir á fyrsta deginum. Hollenskir söluaðilar eru ánægðir með sölu á ferðum til Íslands þessa dagana, en ekki spillir þar fyrir að í janúar hófust sýningar á hollenskum raunveruleikaþætti sem tekinn var upp á Íslandi síðastliðið sumar.

Að venju tók Íslandsstofa þátt í CMT ferðasýningunni í Stuttgart (14.-22. janúar) sem er stærsta sinnar tegundar í Evrópu fyrir neytendur en hana sóttu um 225.000 gestir í ár.
Á sýningunni kom í ljós að þátttaka Íslands sem gestalands á sýningunni árið 2011 skilaði sér í aukinni athygli á landinu nú ári síðar. Þetta sást helst í aukningu markvissra fyrirspurna gesta til þýskra og íslenskra fyrirtækja á Íslandsbásnum. Sú staðreynd að í sumar verður boðið upp á allt að fimm bein flug í viku frá Stuttgart, á móti tveimur sumarið 2011, er einnig stór áhrifavaldur þarna. Almennt eru söluaðilar ánægðir með bókanir frá Þýskalandi fyrstu mánuði ársins.

Á ferðasýningunni FITUR á Spáni (18.-22. janúar) tóku átta íslenskir og spænskir aðilar þátt á íslensku svæði sameiginlegs Norðurlandastands. Sýninguna, sem er tvískipt, sóttu rúmlega 60.000 faggestir fyrstu þrjá dagana, auk 91.000 gesta á helginni þegar opið var fyrir almenning. Sýningin markar upphaf sölutímans á Spáni og eru söluaðilar hóflega bjartsýnir varðandi sölu ferða til Íslands í ljósi efnahagsástandsins í landinu. Þeir telja þó að rísandi áhugi á Íslandi sem kviknað hefur út frá aukinni umfjöllun á landinu síðustu misseri muni vega hér upp á móti.

Deila