Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. október 2020

Þjónustuborð atvinnulífsins verður til

Þjónustuborð atvinnulífsins verður til
Þjónustuborðið er brú milli atvinnulífs og stjórnvalda þar sem fyrirtæki munu m.a. geta leitað sér upplýsinga um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland veitir fjárframlög, og sótt sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað er hægt að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Í dag undirrituðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Hildur Árnadóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu samkomulag á milli utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu um stofnun þjónustuborðs atvinnulífsins.

Þjónustuborðinu er ætlað að vera brú milli atvinnulífs og stjórnvalda þar sem fyrirtæki munu m.a. geta leitað sér upplýsinga um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland veitir fjárframlög, og sótt sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað er hægt að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Þjónustuborðið mun halda utan um þær leiðir sem fyrirtæki hafa til að njóta þjónustu og leiðsagnar hjá utanríkisþjónustunni, Stjórnarráðinu og eftir atvikum öðrum fyrirtækjum sem starfað hafa á svipuðum mörkuðum og stefnan er sett á. Einnig hvernig er farsælast að sækja um styrki til valinna verkefna. „Um leið og kórónuveirufaraldurinn brast á setti ég stuðning við íslenskt atvinnulíf í algeran forgang. Stefnumótun okkar er nú farin að bera ávöxt með þeim nýmælum sem í dag verður hrint í framkvæmd. Ég bind vonir við að með þjónustuborði atvinnulífsins geti íslensk fyrirtæki látið meira að sér kveða í atvinnustarfsemi í þróunarríkjum og víðar, í samvinnu við heimafólk á hverjum stað,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

„Það er ánægjulegt að sjá tillögum starfshóps um framkvæmd utanríkisstefnu í kjölfar COVID-19 hrint í framkvæmd með svo skjótum hætti. Íslandsstofa lagði á síðasta ári fram stefnumótun fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Það má segja að kórónaveirufaraldurinn hafi sannfært okkur enn frekar um gildi hennar. Þjónustuborðið er spennandi viðbót við þjónustuframboð Íslandsstofu og við væntum mikils af samstarfi við framsækin íslensk fyrirtæki í markaðssókn, hvort sem er á rótgrónum eða nýjum mörkuðum,“ segir Hildur Árnadóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu.  

Íslandsstofa mun hafa umsjón með rekstri þjónustuborðsins en í baklandi þess verða sérfræðingar utanríkisráðuneytisins um atvinnulíf og þróunarsamvinnu, viðskiptaþjónustu, uppbyggingarsjóðir í Evrópu, þ.m.t. uppbyggingarsjóður EES, auk annarra samstarfssjóða milli stjórnvalda og atvinnulífs sem íslensk fyrirtæki hafa aðgang að, og sérfræðingar annarra ráðuneyta og tengiliðir um fjölþjóðlegar fjármögnunarstofnanir.

Starfsmaður óskast í innleiðingu og rekstur þjónustuborðsins

Íslandsstofa leitar að öflugum aðila til að hafa umsjón með þjónustuborði atvinnulífsins. Starfið felur í sér að byggja upp þjónustuborðið í samvinnu við hagaðila þjónustunnar sem veitt verður. Sjá nánar


Deila