Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. febrúar 2012

Tom Sellers býður gestum í eldhús

Inspired by Iceland kynnir: Í marsmánuði verður erlendum ferðamönnum boðið að heimsækja Eldhús.

Þar munu innlendir og erlendir matreiðslumenn og áhugafólk um matreiðslu reiða fram rétti úr íslensku hráefni og kynna íslenska matarmenningu.

Íslendingar um land allt eru hvattir til að taka þátt í verkefninu með því að bjóða ferðamönnum heim í eldhús.

Eldhús er lítið hús á hjólum sem rúmar sex manns í sæti. Húsið dregur nafn sitt af þeim vana Íslendinga að safnast saman í eldhúsinu til að njóta góðra stunda og borða góðan mat. Á Íslandi er eldhúsið miðdepill skemmtunarinnar.

Húsið mun ferðast um landið í tólf daga og verður gestum boðið til óvæntra veisluhalda á vinsælum áfangastöðum ferðamanna víðsvegar um Ísland. Leitað verður fanga á hverjum stað með hráefni af svæðinu. Samhliða þessu eru Íslendingar hvattir til að bjóða ferðamönnum heim í eldhús í gegnum heimasíðuna www.inspiredbyiceland.com.

Fyrsti yfirkokkur Eldhúss verður Tom Sellers, en hann er einn virtasti kokkur heims um þessar mundir. Sellers hefur meðal annars getið sér gott orð á veitingastaðnum Noma í Kaupmannahöfn og The French Laundry í San Francisco.

“Mér finnst íslensk matargerð mjög áhugaverð. Íslendingar eru ástríðufullir mataráhugamenn, en við heyrum lítið um íslenska matargerð erlendis,” segir Tom Sellers. “Íslendingar eru skapandi þjóð, og þegar þeirri sköpunargleði er beitt á mat sjáum við áhugaverða matarmenningu verða til. Gamlar hefðir eru mikilvægar í íslenskri matarmenningu, en maturinn er að verða nútímalegri. Íslendingar hafa aðgang að ferskustu hráefnum sem völ er á, og eldamennskan er frábær. Íslendingar ættu að vera stoltir af þessu og sýna heiminum hvað þeir geta gert.”

Eldhús er nýtt verkefni á vegum Inspired by Iceland sem miðar að því að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn með áhuga á matargerð og kynna íslenska matarmenningu með nýstárlegum hætti. Húsið er hannað í anda íslenskra sveitabæja og smíðað frá grunni til þess að takast á við þetta verkefni.

Inspired by Iceland leitar að áhugafólki um matreiðslu til að taka þátt í verkefninu. Íslendingar eru hvattir til að nota þetta tækifæri til að bjóða erlendum ferðamönnum heim í eldhús og kynni þá fyrir íslensku hráefni og íslenskri matargerð.
Heimboð Íslendinga síðastliðið haust vöktu mikil viðbrögð hjá ferðamönnum, og nutu mikillar athygli erlendra fjölmiðla. Alls voru heimboðin til umfjöllunar í 57 löndum, og hafði rúmlega milljarður manna aðgang að umfjöllun um heimboðin á sínum heimamarkaði.

Mikill fjöldi þessara heimboða snerist um mat með einum eða öðrum hætti og er ljóst að Íslendingar eru stoltir af sínum matarhefðum. Það var því auðveld ákvörðun að beina athyglinni sérstaklega að íslenskri matarmenningu í þessum fyrsta áfanga Inspired by Iceland á þessu ári.

Inspired by Iceland er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Icelandair, Reykjavíkurborgar, Samtaka ferðaþjónustunnar, Iceland Express, ISAVIA, Samtaka verslunar og þjónustu og Landsbankans og rúmlega 130 annarra fyrirtækja. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili verkefnisins.

Deila